135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:29]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki sömu áhyggjur og hv. þm. Atli Gíslason. Ég held einmitt þvert á móti að frumvarpið muni styrkja stöðu hinnar nýju atvinnugreinar sem nú er verið að byggja upp. Frumvarpið sem hér liggur fyrir í dag um stjórn fiskveiða og við ræðum um, snýr að því að það verði að teljast veiðar í atvinnuskyni ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða, það er grundvallaratriði. Það mun einnig styrkja stoðir undir ferðaþjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni, vil ég taka fram, því að þar hafa menn sérstaklega hugað að þessum málum. Nú þegar hafa verið stofnuð ferðaþjónustufyrirtæki á Vestfjörðum sem sinna þessari tegund ferðaþjónustu. Bundnar eru miklar vonir við að frístundaveiðar verði í hinum dreifðari byggðum þar sem gerðar hafa verið alvarlegar tilraunir til þess að breikka grundvöll atvinnulífsins. Ég vil kalla þær ferðaþjónustuveiðar og þær eru góð stoðgrein við ferðaþjónustu. Það er mjög mikilvægt að byggja á styrkleikum hvers byggðarlags. Því má leiða líkur að því að þar sem menn þekkja best til í smábátaútgerð geti orðið til nýr sproti á grein atvinnulífs minni byggðarlaga. Bæði er til staðar mikilvæg þekking og reynsla en einnig sá stofnbúnaður sem þarf til þess að stofna slík fyrirtæki. Ný og aukin verkefni fást með þessum hætti fyrir bátaflotann og þá meiri arður af þeirri fjárfestingu sem í honum liggur.

Komið hefur fram í viðtölum við sveitarstjórnarmenn og hagsmunaaðila, t.d. á Vestfjörðum, að þeir líti vongóðir til tækifæra í þessum geira ferðaþjónustunnar. Það hefur sýnt sig að Þjóðverjar hafa verið sérstaklega áhugasamir um fiskveiðar af þessu tagi. Flugvélafarmar af ferðamönnum frá Þýskalandi hafa sótt Vestfirði heim nokkur undanfarin sumur. Ég nefni hér sérstaklega Vestfirði vegna þess að þar hafa menn verið ákaflega framsæknir á þessu sviði en auðvitað hefur verið hugað að ferðaþjónustu af þessum toga víðar og hún hefur verið stunduð þannig að ég tel þetta mikilvægt mál fyrir alla landsbyggðina.

Auðvitað er mjög mikilvægt að þessi tegund ferðaþjónustu verði markaðssett og seld með heildstæðum hætti svo að sem mestur virðisauki geti orðið til við þjónustu ferðamanna sem í hana sækja. Það er meginatriðið sem við verðum að huga að þegar við sköpum eitthvað sem orðið getur styrk stoð undir atvinnulífi hinna smærri byggðarlaga á landsbyggðinni.

Þá er auðvitað ekki síður mikilvægt að lögð sé áhersla á að meðferð afla sé góð og almennt sé fylgt þeim reglum sem gilda við veiðar í atvinnuskyni. Því er frumvarpið mikilvægt til að undirstrika að hér er um veiðar í atvinnuskyni að ræða, það er algjört grundvallaratriði, af því að byggð er upp atvinnugrein. Þetta eru ekki einhvers konar hobbýveiðar. Þess vegna er mjög mikilvægt að nægjanlegar aflaheimildir séu til staðar í kvótabundnum tegundum til þess að hægt sé að stunda veiðar af þessu tagi.

Þegar sams konar mál lá fyrir sjávarútvegsnefnd á síðasta vetri var leitað eftir afstöðu margra til málsins og rétt er að taka fram að almennt voru jákvæð viðbrögð við frumvarpinu. Fram komu þó atriði, einkum tvö, sem sjávarútvegsnefnd athugaði sérstaklega eins og fram kemur í nefndarálitinu frá þeim tíma.

Í nefndaráliti frá 133. löggjafarþingi um mál af sama toga segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hið fyrra varðar sjónarmið um jafnræði en frumvarpið virðist bjóða þeirri hættu heim að ýmsar útgerðir gætu hafið að stunda fiskveiðar undir yfirskyni frístundafiskveiða í því augnamiði að koma sér undan íþyngjandi reglum á sviði fiskveiðistjórnar og spara sér um leið kostnað. Síðara atriðið varðar það að ákveðinnar réttaróvissu virðist hafa gætt varðandi það hvaða kröfur eigi að gera til skipstjórnar frístundafiskveiðiskipa og hvort um það atriði gildi reglur um fiskiskip, farþegaskip, skemmtibáta eða jafnvel einhver önnur skip.“

Á þeim tíma brást sjávarútvegsnefnd við þessum athugunarefnum og lagði til breytingar á því sem m.a. sneri að því að skýra betur um hvaða fiskveiðiflota væri að ræða. Þar var m.a. tekið fram að einungis yrði heimilt að stunda fiskveiðar með stöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar.

Auðvitað var farið vel yfir málið á þeim tíma og nokkuð margir aðilar kallaðir til þess að ræða það og eins og ég nefndi kom inn þó nokkuð af umsögnum við frumvarpið. Ég reikna með því að við sem nú sitjum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins munum skoða þessi atriði sérstaklega og önnur þau sem upp munu koma í umfjöllun málsins. Við munum örugglega skoða þau atriði sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi hér að hann vildi fá svör við áður en hann gæti samþykkt frumvarpið eins og það liggur fyrir.