135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:41]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að hv. þingmaður hafi komið þarna að kjarna málsins. Það er algjörlega ljóst að ekkert liggur fyrir um hvort þær veiðar sem stundaðar hafa verið og það litla magn sem hér var nefnt, 163 tonn, breyti nokkru um fiskistofna við landið eða hagkvæmni vinnslunnar. Því fer víðs fjarri. Þetta er innan við prósent, þetta er smáræði.

Ég hygg að farsælast í þessu máli væri að hæstv. sjávarútvegsráðherra drægi frumvarpið til baka, aflaði ítarlegri upplýsinga um magnið og hvort þetta fari gegn markmiðum fiskveiðistjórnarlaganna, hvort þetta spilli fiskstofnum, hvort þetta minnki hagkvæmni veiða o.s.frv. Það yrði skoðað vandlega, vandinn yrði greindur. Ef vandinn er raunverulegur yrði að því loknu lagt fram frumvarp í þessa veru. Að mínu mati er algjörlega fráleitt að skella á borðið frumvarpi þar sem engin greining eða tölulegar upplýsingar liggja fyrir. Það finnst mér vera langt gengið. Það er alveg ljóst í mínum huga að ástæða er til að hafa áhyggjur af því að frumvarpið muni ganga gegn þeim markmiðum að treysta byggð í landinu. Þá er betur heima setið. Þá er betra að gaumgæfa málið í botn og leggja það vandlega undirbúið fyrir þing ef raunveruleg þörf er fyrir frumvarpið.