135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:07]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það getur vel verið að mér hafi orðið á í messunni þegar ég talaði um að hv. þm. Jón Bjarnason hefði ekki minnst á kvóta en við vorum saman í sjónvarpsþætti fyrir stuttu og þar talaði hann um að það sem vantaði væru peningar og fyrirgreiðsla úr bankakerfinu fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni.

Hv. þingmaður og ég erum ekki sammála um það. Við þurfum ekki peningana, við þurfum frelsi. Við þurfum að fá frelsi til að geta stundað atvinnu á jafnréttisgrundvelli, haft jafnan aðgang að sameiginlegum auðlindum eins og fiskinum í sjónum. Það er það sem við þurfum en ekki fyrirgreiðslu úr bönkum, styrki úr Byggðastofnun eða frá einhverjum opinberum stofnunum. Það er ekki það sem vantar. Það vantar jafnrétti og frelsi til þess að geta staðið jafnfætis í nýtingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Menn þurfi ekki að vera leiguliðar, leigja kvóta dýrum dómi eða kaupa kvóta dýrum dómi. Varanlegar veiðiheimildir á 4.200 kr. eins og síðasta verð var í stóra kerfinu, það … (Gripið fram í.)

Það er ekki verið að tala um það, hv. frammíkallari, að allir eigi að fá að veiða, það er eðlilegt að menn standi jafnfætis hvaða útfærsluleiðir sem farnar eru. Allir eiga sama rétt. Það má bjóða upp veiðiheimildir og láta menn keppa um þær á þeim grundvelli. (Gripið fram í.) Auðmennina, það þarf ekki að eyrnamerkja þeim þetta eða gera þeim hærra undir höfði til að kaupa veiðiheimildir eða aðgang að veiðiheimildum, nýtingarréttinn, heldur er hægt að ganga þannig frá því að (Forseti hringir.) allir standi jafnir.