135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns að allir þurfi að standa jafnir. Jafnrétti þarf að vera til staðar og jöfn tækifæri og ekki hvað síst fyrir fyrirtækin úti á landi og nýja atvinnugrein eins og (Gripið fram í.) sérhæfða ferðaþjónustu. Hún þarf sinn grunn, sem í þessu tilviki er að geta veitt fiskinn í sjónum á stöng. Með þessum lögum er verið að leggja opinbert gjald á það. Þá spyr ég: Er það réttlætanlegt út frá fiskveiðistjórnarsjónarmiðum og út frá spurningunni: Hvað ræður þessi nýja grein við að borga?

Ég tel mjög varhugavert að íþyngja þessum greinum með þessum hætti. Einnig ber að horfa til þess að veðhæfni eigna úti um land er af fjármálastofnunum miklu lægra metin þannig að fyrirtækin eiga mun erfiðara með að fjármagna bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað samkvæmt reglum lánastofnana á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að staðbundnir sparisjóðir hafa ekki gert jafnstranga kröfu um veð íbúðarhúsa úti um land. Það er kannski ekki metið veðhæft nema upp á 2–5 milljónir, þó að byggingarkostnaður sé upp á 20 milljónir, vegna staðsetningar. Þetta hafa staðbundnir sparisjóðir oft og tíðum metið á annan hátt.

Ég held því að það sé mikilvægt í öllu þessu heildarsamhengi að við stöndum vörð (Forseti hringir.) um sparisjóðina sem starfa á þeim hugsjónagrundvelli að vilja vinna sinni byggð gagn en ekki bara að þeir geti haft af henni fé.