135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:18]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða stóra fiskveiðimálið, stóra sportfiskveiðimálið, þar sem það hefur verið upplýst í umræðunni að á veiðum sem eru byggðar á nýrri útfærslu þessarar atvinnu hafi nú náðst á land jafnvel 160 tonn af hinum og þessum fiskum og þar á meðal væntanlega stórlúðunni, sem var skráð í heimsmetabók í Súgandafirði á sl. sumri og var sennilega meiri auglýsing fyrir Ísland en við höfum notið annars staðar lengi, þ.e. að menn hefðu þennan möguleika að reka jafnvel í stórlúðu á Íslandsmiðum, eins og frægt er.

Það hefur aðallega verið talað um og mælt fyrir því hér að það væri svo mikil mismunun að leyfa mönnum að hafa eitthvert forskot til að koma á fót nýrri atvinnustarfsemi. Er þetta í einhverju samræmi við það sem við erum að hugsa í öðrum atvinnugreinum? Ég held ekki, hæstv. forseti. Við erum að ýta undir í öðrum atvinnugreinum með ýmsum hætti, við erum með nýsköpunarsjóð sem styrkir nýjar atvinnugreinar og ný atvinnutækifæri. Er það mismunun gagnvart einhverjum öðrum sem eru að fást við svipaða hluti eða voru fyrir? Við erum með AVS-sjóðinn sem hæstv. sjávarútvegsráðherra þekkir mjög vel. Við höfum Byggðastofnun sem reynir líka að stuðla að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst höfum við lög um stjórn fiskveiða sem hafa það göfuga markmið að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Ég held að það ætti að vera megininntakið í umræðunni að horfa á þetta út frá því í ljósi þess að allar aðgerðir stjórnvalda hingað til í kvótakerfinu hafa ekkert gert annað en að vega að byggðinni og fækka atvinnutækifærum í byggðunum.

Þegar menn urðu fyrir miklum skakkaföllum, m.a. í heimabyggð hæstv. sjávarútvegsráðherra í Bolungarvík þegar kvóti stóru skipanna var seldur í burtu og Matthías Bjarnason, þáverandi þingmaður, komst þannig að orði að hann vonaðist til að Grindvíkingar, sem þá voru að kaupa kvótann, yrðu Bolvíkingum góðir, því að það var ekkert annað ráð, þetta var heimilt samkvæmt lögum. Það var ekkert annað ráð til að bregðast við en að biðja um gott veður og biðja um það að menn héldu áfram atvinnustarfsemi. Sá kvóti fór, og hvað gerðu menn í Bolungarvík? Þeir rifu sig af stað með því að fara inn í tiltölulega opið kerfi smábátaveiðanna og byggja upp nýja atvinnustarfsemi, nýja stöðu, að vísu í hefðbundnum fiskveiðum en með öðru lagi en hafði kannski verið burðarásinn í Bolungarvík og mörgum fleiri byggðum.

Það varð til þess að á þeim árum þegar menn höfðu tiltölulega mikið frelsi í botnfiskveiðunum á smábátunum, handfæraveiðum og línu, krókaveiðum, þá tókst mönnum sums staðar að bjarga byggðunum sínum með því að hafa frelsi, frelsi sem var öðruvísi en það frelsi sem var í veiðum stærri skipanna sem voru með kvóta. Leiðin sem farin var til þess að drepa þetta frelsi var að kvótasetja, kvótasetja á alla báta. Síðan var haldið áfram að fjölga kvótabundnum fisktegundum þannig að alltaf minnkuðu möguleikarnir til þess að bjarga sér, og við erum búin að tína inn í kvótakerfið alls konar tegundir sem ég tel a.m.k. ekki nauðsynlegt að séu þar og eru oftast nær sem meðafli.

Viðbrögðin hafa því alltaf verið þau sömu, hæstv. forseti, að bregðast við allri framsækni einstaklinganna með því að hefta þá inn í kvótakerfið. Þar eiga menn að vera jafnir. Jafnræðið á að finna með því að setja menn inn í rammann, festa þá þar. Það er jafnræðið sem Sjálfstæðisflokkurinn leitar að með logandi ljósi, að negla allt svoleiðis niður að menn skuli ævinlega þurfa að borga öðrum fyrir réttinn. Það er staðan í dag. Menn eiga sem sagt að leigja eða kaupa þennan rétt af öðrum sem fengu hann. Menn eru búnir að fá margúthlutað í ýmsum kerfum og eftir ýmsum leiðum í kvótakerfinu.

Vissulega er það rétt að á seinni árum hafa margir keypt kvóta og bætt við sig aflaheimildum. En flestallir sem hafa gert það, þó að til séu einstaka undantekningar, eru þeir sem voru fyrir í kerfinu með einhvern grunn eða komu sér honum upp þegar frelsi var til að veiða eins og á smábátana, komu sér upp grunni sem þeir gátu byggt á.

Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að það eru mikil vonbrigði að menn skuli keyra þetta frumvarp fram með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Það er eitt atriði í frumvarpinu sem mér finnst vera rök fyrir til að ræða. Það er hvernig þessum skipum er stjórnað og hver stjórnar þeim, hvaða réttindi menn eiga að hafa o.s.frv. Það á að setja kröfur um það að ferðamenn sem hingað koma og vilja fara á þessum skipum hafi atvinnuréttindi, siglingaréttindi, eða eigum við að gera kröfur um það að á þeim séu þá íslenskir skipstjórar? Það eru atriði sem mér finnst eiga að koma til umræðu og er eðlilegt að ræða. En ég er mjög andvígur því að hefta þessa atvinnugrein nú þegar á þeirri braut sem hún er á því að vissulega gæti þetta verið vaxtarbroddur fyrir margar byggðir og margan sjómanninn sem hefur þekkingu og á bát en á ekki veiðiheimildir til þess að búa sér til atvinnu eða reyna að minnsta kosti að hafa sumaratvinnu, því að þetta eru náttúrlega fyrst og fremst sumarveiðar miðað við hnattstöðu okkar og veðurfar.

Sumir gera jú algjörlega út á það að bara sé verið að veiða fisk á sjóstöng og það sé eini sölumátinn í ferðinni en það er samt ekkert algilt. Menn eru með hvalaskoðun, menn eru með fuglaskoðun, menn geta verið með fuglaveiðar, menn eru með sjóstöng. Sumir elda fiskinn um borð og hann er borðaður á landleiðinni, hann kemur væntanlega aldrei á vigt, ekki frekar en sá fiskur sem hent er fyrir borð í brottkastinu, hann kemur aldrei að landi en nemur auðvitað mörg hundruð tonnum meira en þau 160 tonn sem menn eru að ræða hér ef menn ætla að ræða þetta út frá líffræðinni, á þeim sjónarmiðum hvernig við erum að byggja upp stofninn eða ekki að byggja hann upp.

Svo er líka rétt að benda á það, hæstv. forseti, að það eru fjöldamargar aðrar reglur sem gefa þeim sem hafa aflaheimildir í dag möguleika til þess að telja afla utan kvóta. Ef ég man rétt er það hálfur undirmálsaflinn sem er utan kvóta, hæstv. sjávarútvegsráðherra leiðréttir þá ef ég fer rangt með. Það er 5% af afla sem má leggja í svokallaðan Hafró-afla. Hafrannsóknastofnun hefur aldrei haft nokkrar einustu áhyggjur af því enda fá þeir tekjur af því. En um leið og er verið að veiða 160 tonn á sjóstöng lýsa þeir því yfir að þetta geti verið hættulegt fyrir uppbyggingu stofnsins og viðhald hans. Menn eigi auðvitað að setja þetta í haft og stýringu, þennan mikla afla, sem ég sagði áðan í stuttu frammíkalli að væri sennilega svipað og fimm eða tíu hrefnur á Íslandsmiðum mundu éta, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. (ArnbS: Það þarf líka að telja þær.) Já, vonandi verður þú bara í því að telja þær ef það er aðaláhyggjuefni þitt og það er auðvitað fullt tilefni til að hafa áhyggjur af (Gripið fram í.) hvernig hvalastofnarnir vaxa hér við land, fullt tilefni til.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir gat líka um það að við ættum að byggja á styrkleikum okkar, við kynnum að gera út smábáta úr hinum ýmsum byggðum. Það er alveg rétt, en fjöldamargir þeirra manna sem kunna það hafa ekki í dag nokkurn möguleika til þess að gera út í byggðunum. Þeir eru leiguliðar fyrir þá sem eiga aflaheimildirnar ef þeir vilja róa. Ég tel það því ekki ýta undir styrkleika byggðanna að hefta það að menn geti farið af stað í þessari nýju atvinnugrein með þekkingu sína með þeim hætti að skipa þeim að kaupa aflaheimildirnar af öðrum áður en þeir fara á sjó. Ég veit ekki til þess að þó að maður fari í sjóstangaveiði á Kanaríeyjum borgi maður nokkurt einasta snitti fyrir þann fisk sem maður fær, sem er rétt að taka fram að hefur verið lítill og fáir. En við borgum auðvitað fyrir siglinguna og fyrir að nota bátinn o.s.frv. Ég hygg að það sé mjög svipað víða í Evrópusambandslöndunum þó að ég hafi ekki kynnt mér það sérstaklega.

Mér finnst að það þurfi að taka þetta mál, sem ég hef leyft mér að kalla stóra sportfiskveiðimálið, til gagngerrar endurskoðunar og ég held að það væri mjög þarft að ræða það en láta það liggja. Það er allt í lagi að ræða þessi mál fram og til baka vegna þess að þau varpa ljósi á það hvað við erum að gera og hvað við erum að fást við. Forsvarsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa t.d. frelsi til þess að veiða eins mikið í rannsóknum og þeim dettur í hug, þeir hafa engar áhyggjur af því, þar er örugglega um að ræða meira en 160 tonn á ári, alveg örugglega. Fiskur sem er skemmdur og selbitinn telst ekki til kvóta. Er það stórhættulegt fyrir kvótakerfið?

Er málið kannski bara það að þau verðmæti sem koma út úr þessum afla — ja, ef við mundum láta þau renna til Hafrannsóknastofnunar, mundu forsvarsmenn stofnunarinnar grjóthalda kjafti og segja takk, alveg eins og þeir gera með hin prósentin sem þeir hafa engar áhyggjur af? Ég held að við getum ekkert annað en talað tæpitungulaust um þetta, hæstv. forseti. Það er meðafli á síld, loðnu og kolmunna. Hann er engan veginn alltaf talinn til aflamarks í þeim tegundum sem veiðast með þeim veiðum, það vita allir sem vilja vita. Það er svo sem ekkert við því að gera, það kemur örugglega alltaf einhver meðafli með í þessum veiðum og við erum auðvitað að horfa á það að reyna að nýta þessa stofna, síld, kolmunna og loðnu. Þá eiga menn heldur ekki að láta eins og — ja, ég veit ekki hvernig maður á að orða það — nánast eins og himinn og jörð séu að farast út af einhverjum 160 tonnum sem eru veidd í nýrri atvinnugrein sem er að koma undir sig fótunum. Leyfum henni að þróast, horfum á hana eftir fimm eða tíu ár. (ArnbS: Þetta er bara smáhluti af því.)

Ef þú ætlar að sauma utan um allt lífríkið, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, þá skaltu koma með tillögu um hvernig þú ætlar að gera það. Alla hluti sem snúa að þessu flókna lífríki okkar, hvernig á að taka utan um það að stjórna því upp á kíló hvað kemur úr hafinu eða hvað deyr þar. Í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða segir að sjávardýr og sjávargróður teljist til nytjastofna. Ég spyr: Eru svartfuglstegundir undir þessu? Þær eru að vísu friðaðar eftir öðrum lögum og fólk má veiða svartfugl á ákveðnum árstíma, en við erum búin að heyra sögur af því í sl. þrjú ár að svartfuglinn hefur ekki nægt æti og rekur á fjörur norðan lands. Ætlum við að fara að hafa sérstakar áhyggjur af því? Og hvernig ætlum við að hafa áhrif á það?

Ég held að við séum að ætla okkur ofverk, hæstv. forseti, með því að ætla að reyna að fara inn í þetta mál með þeim hætti sem hér er lagt upp með, að það sé svo nauðsynlegt að binda allt niður upp á kíló og gramm vegna þess að annað sé stórhættulegt fyrir lífríkið. Hvílíkur ofmetnaður mannskepnunnar að halda að hún stjórni lífríkinu. Ég held að menn ættu aðeins að staldra við og leyfa þessu máli að þróast í nokkur ár áður en menn fara alveg á taugum yfir því, hæstv. forseti, að kvótakerfið hrynji með þessu. Við erum ekki að taka úr malarbing þar sem við getum mælt og vigtað nákvæmlega hvað er tekið.