135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:33]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem lýtur að því að kvótasetja þá báta sem veiða fisk eða sem ferðamenn veiða. Mig langar til að byrja á að taka undir orð sem hafa verið hér sögð um að farið sé í hvívetna eftir þeim reglum og boðum sem gilda um öryggi þessara báta og skipa.

Fyrir helgi var einmitt verið að ræða í þinginu um ályktanir Vestnorræna ráðsins sem fjallaði um björgunarmál á norðurslóðum þar sem skorað er á ríkisstjórnir landanna þriggja, Íslands, Grænlands og Færeyja að standa að sameiginlegum björgunaræfingum og huga að öllu öryggi í sambandi við hafið vegna aukinnar umferðar. Eitt af því sem er að gerast hér í sambandi við þessa auknu umferð er að við fáum hingað sífellt fleiri ferðamenn sem betur fer. Ferðamennskan er atvinnugrein í vexti og sérstaklega hefur hún verið það á höfuðborgarsvæðinu. Það er næstum því hægt að segja að það sé byggt eitt eða tvö hótelherbergi á dag í Reykjavík. Það væri nú ánægjulegra ef það sama gilti um landsbyggðina, ekki veitir nú af.

Þó er sá vaxtarbroddur í ferðamennsku úti á landi einmitt sá að menn fara út á sjó með ferðamenn og veiða fisk. Það hefur verið í raun ekki mjög algengt. Við þekkjum það náttúrlega að útlendingar hafa komið til Íslands til að veiða og þá hafa þeir verið að veiða í ám og vötnum og þeir hafa verið algjörlega sáttir við að borga tugi ef ekki jafnvel hundruð þúsunda króna fyrir að veiða lax hér í ám. Þegar ferðamenn koma til Íslands gagngert til þess að veiða fisk þá held ég að vandamálið sé ekki það í þeirra huga að það sé svo rosalega dýrt, alls ekki, þó að þeir þurfi að greiða fyrir það. Það liggur í augum uppi að ferðamenn sem hafa komið til Íslands til veiða eru algjörlega fúsir til að greiða dágóðar summur fyrir það hvort sem það er í fiskveiðiám, í ánum eða jafnvel á hreindýraveiðar eða eitthvað annað.

Ég skil mjög vel að þetta frumvarp skuli koma fram og mér finnst ekkert óeðlilegt við það vegna þess að það er orðinn mikill vöxtur í þessari grein. Það hefur verið talað um að farið sé að veiða 160 tonn á síðasta ári. Hvað var það í fyrra og þar áður? Hv. þingmaður Jón Bjarnason nefndi sem dæmi að það gætu komið þrjú þúsund ferðamenn til að veiða fisk. Ef við gefum okkur að það komi þrjú þúsund ferðamenn á næsta ári til að veiða fisk hér á sjóstöng og hver þeirra veiði (Gripið fram í.) 200 kíló þá erum við að tala um 600 tonn af fiski sem veiddur er þarna. Hvað á að gera við þennan fisk? Er hann ekki settur í vinnslu? Ekki fara mennirnir með fiskinn til útlanda og borða hann þar. Hann er seldur og hann er settur í vinnslu og hann er fénýttur. Ég spyr: Er þá orðinn einhver munur á þessu og þeim sem eru að stunda veiðar í atvinnuskyni?

Með þessum orðum er ég ekki að segja að ég sé hlynntur lögunum um stjórn fiskveiða. En ég segi að fyrst við erum með þessi lög (Gripið fram í: ... auka á vitleysuna.) og þessar reglur þá verður það sama að gilda um alla. Ég tek undir orð hv. þm. Herdísar Þórðardóttur sem var að tala um bátana tvo á fiskimiðunum. Annar er að veiða á skaki og hinn er að veiða á sjóstöng kannski með þrjá, fjóra Þjóðverja og báðir eru þeir að veiða kannski eitt tonn yfir daginn. En þeir eru ekki í sömu stöðu. Þess vegna finnst mér mjög skiljanlegt að frumvarpið komi fram.

Ég vil líka taka fram að nokkur umræða hefur orðið um það hvort frumvarpið banni fólki sem á trillu án nokkurra fiskveiðiheimilda að fara út á sjó og veiða sér í soðið. Svo er alls ekki enda kemur það fram í greinargerð, í athugasemdunum við lagafrumvarpið þar sem vitnað er í lög um stjórn fiskveiða, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er heimilt án sérstaks leyfis að stunda í tómstundum fiskveiðar með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem fæst við slíkar veiðar, er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja hann eða fénýta á annan hátt.“

Eins og mátti skilja áðan á orðum eins þingmanns að með þessu frumvarpi væri verið að banna frístundaveiðar — það er greinilega alls ekki verið að gera það. Þá hef ég misskilið frumvarpið.

Ég segi það, herra forseti, að mér finnst það mjög ánægjulegt að þessi grein, sjóstangaveiðar ferðamanna skuli vera vaxandi. Ég vona að hún muni vaxa enn og er sannfærður um það líka að þeir sem koma til með að veiða þennan fisk munu ekki setja það fyrir sig að þurfa að greiða fyrir það með sama hætti og aðrir þurfa að gera sem eru að veiða hér í landinu. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, er kvótakerfið eða fiskveiðistjórnkerfið og það kerfi allt bara allt önnur saga sem er í stöðugri umræðu og við höfum misjafnar skoðanir á því, jafnvel í öllum flokkum.