135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:50]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, Karli V. Matthíassyni, að þegar við ræðum þessi mál þá eigum við að sjálfsögðu að gera það af fullri ábyrgð og það höfum við þingmenn Frjálslyndra gert í þessari umræðu sem og í öðrum umræðum á hinu virðulega Alþingi.

Frumvarpið sem við fjöllum hér um er lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Þar segir að það teljist veiðar í atvinnuskyni ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða. Það sem frumvarpið snýst í raun um er að breyta lögum um stjórn fiskveiða og taka gjald af leigu báta sem ætlaðir eru til veiða. Í frumvarpinu er vísað til 6. gr. laganna en síðan er fjallað um að verulegur áhugi sé á ákveðnum tómstundaveiðum, veiðum á sjóstöng og auk þess er talað um vaxandi áhuga erlendra ferðamanna í greinargerð með frumvarpinu. Um er að ræða ákveðinn vaxtarbrodd í íslenskri ferðamennsku sem kemur sjávarbyggðum sem eiga undir högg að sækja sérstaklega til góða og þá er lagt til að brugðið sé fæti fyrir þessa starfsemi.

Nú er það þannig, eins og ég vakti athygli á í upphafi, að ef frumvarpið nær fram að ganga sem lög frá Alþingi er verið að setja ákveðnar reglur varðandi þá sem leigja fiskiskip sín til frístundaveiða, taka gjald af þeim. Málið snýst þar af leiðandi ekki í sjálfu sér um fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt heldur um það að leggja nýja tálma við ákveðinni atvinnustarfsemi. Mér skildist á hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni í ræðu hans áðan að það sem málið snerist um í magni talið væru 160 tonn af fiski á síðasta ári. Það er eitthvað sem skiptir engu máli varðandi verndun nytjastofna, ekki nokkru. Það varðar ekki almannahagsmuni í landinu en hins vegar á að setja frekari þrengingar til að þrengja að þeirri atvinnugrein sem hefur verið að hasla sér völl með þessum hætti og hefur komið sér sérstaklega vel fyrir byggðir sem hafa í vaxandi mæli átt undir högg að sækja vegna þess óréttláta kvótakerfis sem við búum við.

Hv. þm. Atli Gíslason vakti athygli á því í ræðu sinni áðan að greiningu vantaði á því hvaða þörf væri fyrir aðgerðir þær sem hér eru lagðar til. Ég er honum sammála í því efni og tek undir þau sjónarmið sem hann rakti varðandi það. Það vantar greiningu á þörfinni, hún er ekki fyrir hendi. Þegar engin greining er fyrir hendi er engin forsenda eða ástæða til að vera að breyta lögum.

Ég velti fyrir mér spurningum sem upp koma varðandi þær hömlur sem verið er að leggja á atvinnufrelsi manna í þessu frumvarpi. Er ekki hægt að gera það með einhverjum öðrum hætti en lagt er til? Fylgjum við reglum um meðalhóf, þ.e. að ríkisvaldið bregðist ekki við með því að leggja meiri tálmanir en nauðsyn krefur? Satt að segja get ég ekki séð nokkra nauðsyn á því að breyta lögum svo sem hér er lagt til og lýsi mig algerlega andvígan frumvarpinu sem hér er um að ræða. Ég mun greiða atkvæði gegn því af því að ég sé enga forsendu eða nauðsyn á því að breyting sé gerð á lögum um stjórn fiskveiða.

Í annan stað, og það sem meira máli skiptir, tel ég að ekki séu komin fram rök eða nokkrar haldbærar skýringar í greinargerð með frumvarpinu sem réttlæta það frumvarp sem hér liggur fyrir með vísan til 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Það þýðir að til þess að lög verði sett sem skerða atvinnufrelsi manna þá þurfi almannahagsmunir að koma til. Ég spyr: Hvar var hægt að merkja að hæstv. sjávarútvegsráðherra vísaði með einhverjum hætti til að frumvarpið væri lagt fram vegna þess að þörf væri á að setja þetta lagaákvæði á grundvelli almannahags? Svarið er: Það kom hvergi fram. Þar er hvergi skírskotun að einu eða neinu leyti til almannahagsmuna. Hér er tvímælalaust um að ræða frumvarp þar sem lögð er til skerðing á atvinnufrelsi og þá er spurningin: Hvað er verið að skerða? Jú, vísað er til eigenda sem taka gjald af þeim sem nýta bátinn sinn til veiða, þ.e. ég á bát sem má nýta til veiða, þess vegna sportfiskveiða, og ég leigi hann erlendum eða innlendum veiðimönnum. Setja á sérstök ákvæði um að takmarka heimild mína til að leigja bátinn, setja tálmun við atvinnufrelsi mínu til að leigja hann. Þar tekur steininn úr varðandi þetta frumvarp að ekki skuli hafa verið skýrt með einum eða neinum hætti að um einhverja almannahagsmuni sé að ræða þegar takmarka á atvinnufrelsi þeirra einstaklinga sem leigja bátinn sinn í þessu skyni. Þess vegna get ég ekki séð að nokkur forsenda eða grundvöllur sé fyrir Alþingi að samþykkja frumvarpið sem hér liggur fyrir óbreytt og án frekari rökstuðnings.

Eins og ég vísaði til áðan benti hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson á að á síðasta ári hefði veiði af þessu tagi verið í kringum 160 tonn. Þó að sá afli yrði tvöfaldaður, þrefaldaður eða fjórfaldaður, væru þá einhverjir almannahagsmunir sem gerðu kröfu til þess að gera einhverjar lagabreytingar til að skerða frelsi manna til að leigja bátana sína? Ég verð að segja að ég get ómögulega séð að svo sé.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson velti því fyrir sér og vandræðaðist með það í ræðustól að veiðarnar kynnu að vaxa, þetta mundi vera vaxandi atvinnuvegur en hvað mundi það þýða? Ef við samþykkjum ekki frumvarpið sem hér er um ræðir þýðir það samt auknar leigutekjur fyrir þá sem leigja báta sína, það þýðir auknar skatttekjur fyrir þau sveitarfélög þar sem viðkomandi aðilar eru búsettir. Það mundi hafa verulega mikla þýðingu til bóta fyrir hinar dreifðu byggðir í kjördæmi Karls V. Matthíassonar og hæstv. sjávarútvegsráðherra. Mér er það gersamlega óskiljanlegt hvernig á því stendur að þeir vilja vinna gegn sjónarmiðum og hagsmunum umbjóðenda sinna sem þeir gera ef frumvarpið nær fram að ganga.

Sú ríkisstjórn sem hér situr kallar sig frjálslynda umbótastjórn án þess að þess sjáist beint merki í stjórnarsáttmálanum en það er annað mál. Einhvern tíma var sú skilgreining sett fram að íhaldsmaður mundi ekki breyta lögum nema þess gerðist brýn þörf og sýnt væri að þau lög sem fyrir væru dygðu ekki. Ég fæ ekki séð að það hafi nokkra þýðingu varðandi frumvarpið en það sem hins vegar greinir okkur frjálslynda frá er að við viljum ekki breyta lögum til að skerða frelsi borganna nema í algerum undantekningartilvikum, enda bjóði ótvírætt almannaheill. Á grundvelli viðhorfa frjálslyndis er ég ósammála frumvarpinu vegna þess að þar er ekki um ótvíræða almannaheill að ræða eða nokkur þau atriði sem afsaka að farið sé með þessum hætti gegn atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Við erum nýbúin að fá niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar segir aukinn meiri hluti að það sé óréttlátt kerfi sem byggist á gamalli tegundaúthlutun margra áratuga þar sem ákveðinn hópur þeirra sem veiðar stunda þarf að kaupa af öðrum sem fá úthlutað ókeypis frá ríkisvaldinu en þeir þurfa ekki að skila því til baka heldur geta þeir farið með það eins og þeim sýnist. Þeir geta selt það, leigt það og það er grunnur undir veðsetningu. Hér er sagt að kerfið sé mjög óeðlilegt. Hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur til að við veltum því meira fyrir okkur hvernig við getum svarað þeirri kröfu sem alþjóðasamfélagið hefur sett þar sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, að auknum meiri hluta, hefur kveðið á um að gangi ekki upp miðað við almenn mannréttindi. Hæstv. sjávarútvegsráðherra kýs ekki að bregðast við því, nei. Hins vegar skulu sett lög sem tálma það. Það á að reyna að setja reglu um að þeir sem leigja báta sína til tómstundaveiða séu settir undir kvótakerfið án þess að nokkur fiskverndarsjónarmið séu til umræðu eða annað.

Virðulegi forseti. Það er gersamlega útilokað að samþykkja frumvarpið eins og vegið er að atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og rökstuðningurinn hvað þetta varðar er jafnklénn og raun ber vitni, raunar ekki neinn. Eins og ég minntist á áðan vék hæstv. ráðherra ekki að neinu leyti að því hvaða almannahagsmunir réttlættu að farið væri svo gegn atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar.