135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:12]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir vék að því að frumvarpið varðaði almannahagsmuni af því að þetta væri spurning um að nýta þá fiskstofna sem hér eru með hagkvæmum hætti. Það er ekki rétt. Frumvarpið hefur ekkert með það að gera. Hvað hefur frumvarpið með að gera? Það hefur með það að gera, og það er það sem málið snýst um, að setja tálmun við því atvinnufrelsi manna að leigja bátana sína. Það er það sem spurningin snýst um.

Vegna þessara sjónarmiða vil ég leyfa mér að segja: Hvaða máli skiptir það varðandi fiskverndarsjónarmið hvort við leyfum þúsund önglum til viðbótar að vera í sjó á degi hverjum eða ekki? Akkúrat engu máli, það breytir engu hvað það varðar að vernda fiskstofnana.

Víkjum þá að úthlutun á takmarkaðri auðlind. Sjálfstæðisflokkurinn stendur því miður varðstöðu um að engu megi breyta í því óréttláta kerfi sem hér hefur verið varðandi fiskveiðistjórnina. Mér er spurn: Hvernig stendur á því að sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem kennir sig við markaðshyggju, segist vera einn helsti málsvari frjáls markaðar, skuli vilja taka markaðinn úr sambandi þegar kemur að úthlutun takmarkaðra auðlinda? Þá getur markaðurinn ekki nýst til góðra hluta. Það fólk og þeir stjórnmálamenn sem þannig hegða sér eru ekki markaðshyggjufólk í raun.