135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:16]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig með laxveiðiárnar að um þær gilda ákveðin lög, önnur lög en um stjórn fiskveiða. Ef það væri þannig með laxveiðiárnar að það ætti að setja sérstök ákvæði um að það væri óheimilt að leigja út nema gegn ákveðnum skilyrðum er ég hræddur um að það væru allir sammála um að þarna væri um skerðingu á atvinnufrelsi að ræða og þess vegna eignarnámsupptaka. Það er ekki flóknara en það. Sama gildir vafalaust varðandi hreindýrin þó að ég þekki ekki eins lög varðandi þau atriði.

En það er annað atriði sem hv. þm. Karl V. Matthíasson velti fyrir sér sem var samræmi á milli veiða á sjóstöng og, eins og hann orðaði það, trillukarla sem væru í sveit settir eins og hann talaði um, ef þetta væri 500 báta floti. Við erum ekkert að tala um það og menn verða alltaf að tala út frá þeim raunveruleika sem þeir búa við í hverju þjóðfélagi og raunveruleikinn er sá að þetta er ekkert vandamál. Menn eru ekki að tala um neitt vandamál. Menn eru að tala um að hugsanlega geti komið til þess. Ef til þess kemur þá er hægt að bregðast við því á þeim tíma ef málið verður vandamál en það á ekkert að bregðast við með lagasetningu og setja skerðingar og tálmanir þegar engin þörf er á, þegar það er ekkert sem bendir til þess í umhverfinu að það þurfi að setja lagaákvæði til að takmarka þessar heimildir sem menn hafa — til hvers? Til þess að leigja bátana sína. Ég segi: Mér er hulin ráðgáta af hverju hv. þm. Karl V. Matthíasson vill takmarka möguleika manna til að leigja bátana sína.