135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:21]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þm. Karl V. Matthíasson var að setja út á eða spyrja um varðandi þau atriði og sjónarmið sem ég setti fram áðan en þetta virðist vera komið út í spurninguna um það hvernig siglingum í kringum landið sé stjórnað. Þegar ég les það frumvarp sem hér er til umræðu þá get ég ómögulega séð að jafnvel þótt hingað kæmu 500 þúsund Þjóðverjar eða Bretar sé einn stafkrókur eða neitt ákvæði í frumvarpinu sem varðar það hvernig þeir skuli haga siglingum sínum við landið og það er aukaatriði.

Það sem er aðalatriðið er þetta: Við erum í raun ekki að tala um fiskveiðistjórn, við erum að tala um leigu á bátum. Við erum að tala um leigu á bátum sem eru leigðir í ákveðnum tilgangi þar sem um er að ræða frelsi í dag til leigu og það er verið að tala um að setja takmarkanir á möguleikum til að leigja þessa báta. Við erum að tala um atriði þar sem um er að ræða að þeir sem hafa haft framsýni, dug, þor og framtak hafa fundið upp ákveðna nýja hluti til að styrkja og styðja íslenska ferðaþjónustu og skapa sér tekjumöguleika í leiðinni. Þá á að setja tálma á það að þeir sem þannig hafa komið hlutunum fyrir, sem er jákvætt að öllu leyti og skerðir ekki að einu eða neinu leyti hagsmuni varðandi sjávarútveg eða annað, það er verið að tala um að tálma, takmarka möguleika þeirra einstaklinga sem hafa sýnt þannig framtakssemi og dug. Ég verð að segja að mér finnst það gersamlega óásættanlegt að staðið sé þannig að málum.