135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:23]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra þingforseti. Það er nauðsynlegt að menn lesi frumvörp sem er verið að leggja fram og ég ætla að lesa hérna eina setningu fyrir hv. þm. Karl V. Matthíasson, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur þó með reglugerð sett sérstakar reglur um veiðar og afla, m.a. hvað varðar skyldur skipstjóra,“ — þ.e. hvaða skyldur hann þarf að uppfylla — „tilkynningar og skýrsluskil.“

Ráðherra getur ákveðið hvort maður þarf pungapróf eða ekki til þess að fá að vera skipstjóri á þessum trillum.

Það er auðvitað með ólíkindum að við skulum búa við það hér og nú eftir álit mannréttindanefndar að menn skuli vera að reyna að kýla á og koma þessu frumvarpi í gegnum þingið. Þetta snýst um það að allir standi jafnir í þessu eins og öðru í íslenskum sjávarútvegi. Útlendingar sem koma hingað og vilja veiða með sjóstöng eru tilbúnir að borga vel fyrir það. En eigum við að vera með kerfi sem þýðir það að sá sem ekki á veiðiheimildir og þarf að leigja veiðiheimildir til þess að geta farið á sjó þurfi að borga einhverjum sægreifa, einhverjum sem á kvóta, 200 kr. fyrir kílóið til að geta farið út á sjó á trillu? Er ekki nóg komið af þessu?

Við erum í rauninni með ríkisstyrktan sjávarútveg. Mesti ríkisstyrkur sem hefur verið gerður var að afhenda kvótann, leyfa mönnum að versla með hann frjálsu framsali, að leigja kvóta innan ársins, að selja hann varanlegri sölu og geta veðsett hann, sameign þjóðarinnar. Reyndar heitir það ekki sameign þjóðarinnar þar, það heitir nýtingarréttur og með hann er verið að versla. Það er verið að versla með nýtingarréttinn en ekki kvótann sjálfan.

Mannréttindabrot eru mjög alvarleg. Í kosningabaráttunni í vor vildum við í Frjálslynda flokknum, og komum með margar tillögur sem við vildum að næðu í gegn til að snúa ofan af þessu kerfi. Ég er efins um það í dag að þó að þær væru teknar upp að þær stæðust lög. Ég held að það þurfi að snúa miklu hraðar ofan af þessu en við í Frjálslynda flokknum lögðum til. Við vorum að tala um að rétta kúrsinn í þessari vitleysu á 4, 5, 6 árum en ég get ekki betur séð en ríkisstjórnin hafi bara 180 daga til að snúa ofan af þessu og segja hvernig hún ætlar að breyta kerfinu.

Skaðabótum eiga þeir rétt á sem geta sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir mismunun í kvótakerfinu, bæði til sjós og lands. Það er mjög alvarlegt að við skulum þurfa að búa við þetta og það er mjög alvarlegt að við skulum þurfa að fá álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna til að segja okkur að við höfum brotið mannréttindalög á Íslandi í 24 ár. Við höfum verið að benda á þennan gjörning í 24 ár, ég og mínir líkar, að þetta stæðist ekki jafnrétti, mismunurinn væri svo mikill og atvinnufrelsi manna væri brotið. En það hefur aldrei verið hlustað á okkur heldur hefur meira að segja verið reynt að snúa út úr dómum eins og Valdimarsdómnum og Vatneyrardómnum. Þetta er í raun og veru enn þá meiri áfellisdómur, þetta álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna yfir dómstólunum á Íslandi sem hafa ekki staðið sig sem skyldi og hafa dæmt menn seka sem eru svo að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna algerlega saklausir og eiga orðið skaðabótarétt gagnvart íslenska ríkinu fyrir mannréttindabrot. Ég er ekki í vafa um að það munu margir þeirra líkar, hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar, eiga þennan rétt líka og munu nýta sér hann þegar dæmt hefur verið í þeim málum og þeim úrskurðaðar bætur.