135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:28]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir upplýsti áðan í umræðunni að það hefði ekki átt að túlka þessa tölu, 160 tonn, eins og gerðist í umræðunni. Ég ætla því að ganga út frá því að þetta hafi verið 250 tonn eða 240 tonn. En hafi þetta verið 240 tonn, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, hvað skyldi það vera hátt hlutfall af byggðakvótanum, í 9. gr., sem er 12 þúsund þorskígildistonn? (ArnbS: Er það ekki góð viðbót við …?) Hvað skyldi það nú vera? 240 tonn út úr þeim potti, ætli það séu ekki 0,7%? Þetta er alveg stórhættulegt mál.

Svo erum við með 500 tonn í eldiskvóta. Menn hljóta að kippa því til baka. Það getur ekki annað en sett þetta algerlega á hliðina. Svo eru menn með sjóstangaveiðimót sem ekki eru inni í kvóta. Hvað ætla menn að gera við það þegar búið er að segja að það megi ekki veiða neitt á sjóstöng, heldur verði allt að vera í kvóta? Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkurinn?

Virðulegi forseti. Þetta er alveg stórfurðulegt. Ég veit bara ekkert hvert hann er að fara. Ég held ég verði að líta svo á, eins hart og sjálfstæðismenn hafa talað fyrir þessu máli, að vörnin sem þeir ætla að fara í öllu málinu, þar með talið mannréttindunum gagnvart áliti Sameinuðu þjóðanna sé sú að loka öllum hjáleiðum og þá sitja allir við sama borð, að þeirra mati. (ArnbS: Hvernig fjallaði hv. þingmaður um málið á síðasta þingi?) Þetta er alveg stórkostlegt. (ArnbS: Það er sama málið.) Ég hef fjallað um þetta áður, hæstv. forseti.

Síðan segir í 4. gr. laganna eins og þau eru nú, og ég spyr hvernig menn ætli að breyta því: „Á sama fiskveiðiári getur skip bara haft eina gerð veiðileyfis.“

Hv. formaður sjávarútvegsnefndar Arnbjörg Sveinsdóttir er hér og getur ef til vill svarað því hvað eigi að gera. Það hlýtur að eiga að búa til eitthvert sportveiðileyfi og þeir sem eru í sportveiði, kannski 3–4 mánuði á ári, mega þá ekki gera neitt annað? Eða á að breyta þessu ákvæði? Á að gera það undanþegið? Ég held að menn verði aðeins að skoða hvert þeir eru að fara.

Síðan er það komið upp að það er verið að sekta einstakling vestur á Bíldudal fyrir að gefa í soðið. Voru það ekki 42 kg af ýsu sem hann flakaði? Ég held að hann hafi gefið nokkur kíló til eldri borgaranna. Ég veit ekki hverjir það voru sem vildu endilega borga honum en það voru einhverjir sem vildu endilega borga honum. Við, íslenskir sjómenn, erum búnir að gefa í soðið ár og síð og alla tíð frá því að maður byrjaði á þessu og sérstaklega gaf maður því fólki sem maður vissi að hafði ekki mikil auraráð. Hvað er að þessari þjóð? Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara? Hvaða vitleysa á þetta að vera?

Ég held, hæstv. forseti, að menn verði að staldra við og skoða þetta mál ofan í kjölinn. Ég spyr: Ef menn veiða á sjóstöng og elda það um borð, er það þá kvótabrot af því að það er veitt á sjóstöng og búið að ákveða að það sé í kvóta? Er það þá kvótabrot?

Hæstv. forseti. Þetta mál er illa ígrundað og þarf að huga miklu betur að því hvað við erum að gera hér og hvert við ætlum með framhaldið. Aðalmarkmið fiskveiðistjórnarlaganna er að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og það er ekki verið að gera þeim markmiðum til góða með því að hefta nýsköpun í atvinnufrelsi að því er varðar sjóstangaveiði og innkomu sjómanna inn í ferðamannaiðnaðinn þar. Ég endurtek það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, hæstv. forseti, að það er tími til að staldra við og skoða þær reglur sem menn eru með, líka þær reglur sem ráðherra hefur heimild til samkvæmt lögunum að setja, reglur um leyfðan meðafla. Ætlar hann að setja reglur um meðafla við sjóstangaveiðar eða á að kvótasetja allar tegundir niður í lóðskötu og hrognkelsi? Það hefur ekkert verið talað um hvernig eigi að gera þetta, hæstv. forseti. En það er stefnt að því að loka öllum leiðum.