135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:52]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Útlendingar eru tilbúnir til að borga vel fyrir að fá að fara á sjóstöng á Íslandi. En það eiga ekki bara að vera sægreifar sem græða á því. Það er hamlandi fyrir þá eigendur kvótalausra báta sem vilja kannski hafa atvinnu af því að stunda þetta að þurfa að borga 200 kr. fyrir kíló sem þeir ætla að veiða. Það er hamlandi. Það er íþyngjandi. Það er engin spurning um það. En þetta er ríkisstyrkur til þeirra sem hafa kvótann, fengu hann ókeypis eða keyptu hann fyrir lágt verð. Þeir munu græða mest á þessu. Það er sorglegt að sægreifarnir eru varðir af hv. þm. Karli V. Matthíassyni og það er auðvitað útúrsnúningur hjá sjávarútvegsráðherra að tala ekki um að þetta sé íþyngjandi. Þetta er íþyngjandi fyrir þá sem eru kvótalausir og vilja kannski reyna að skapa sér atvinnu í þessari grein. Það þarf að koma (Forseti hringir.) skýrt líka fram hjá honum hvort hann ætli að hleypa mönnum án réttinda á þessa báta.