135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:03]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki greint, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að fullnægjandi skýringar kæmu í ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra áðan varðandi atvinnufrelsisákvæðið og þá almannahagsmuni sem væri um að tefla sem réttlættu framlagningu þess frumvarps sem við erum að ræða. Mér þótti miður að þau sjónarmið skyldu ekki koma fram eða nokkur réttlæting fyrir því að þetta frumvarp yfir höfuð væri lagt fram.

Að öðru leyti vék hæstv. sjávarútvegsráðherra að því að við frjálslynd vildum setja lög sem takmörkuðu frelsi manna. Það er alrangt. Við frjálslynd viljum fara þveröfuga leið og teljum að atvinnuvegir landsmanna, hvort sem um er að ræða sjávarútveg eða landbúnað, séu í dag reyrðir í viðjar kvótasetningar og annarra tálmana sem eyðileggja möguleika til uppbyggingar og vaxtar.