135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:19]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Grétar Mar notar oft orðið séra, séra Jón og Jón. Hann nefndi hér áðan Karl og séra Karl. Ég átti nú eitt sinn trillu og hef tekið þátt í að veiða nokkur þúsund tonn af þorski á Íslandsmiðum, bæði á togurum, netabátum, snurvoðarbátum og á skaki. Hv. þingmaður hélt því fram að mér hefði verið úthlutaður einhver kvóti, það er algjör misskilningur hjá honum. (GMJ: Ég var ekkert að segja það.) Hv. þm. Grétar Mar sagði það beinum orðum. Það var ekkert öðruvísi. Umræðan er nú farin að fara í hring að mínu mati.

Ég ætla að segja í síðasta sinn að ef nýr atvinnuvegur er að verða til, hugsanlega með hundruðum báta, þá sýnist mér algjörlega einsýnt að þeir verði að vera undir sömu reglum og aðrir bátar af sömu stærð sem veiða við strendur landsins. Annars skapa menn gríðarlega mikla óánægju og svekkelsi, það hlýtur að liggja í augum uppi. Þess vegna styð ég frumvarpið. Að vísu er ég alveg til í að skoða ýmislegt sem í því er og bæta má.