135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:28]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara út í guðfræðilegar eða trúfræðilegar umræður í tengslum við þetta mál. (Gripið fram í.) Ég ætla þó að segja í sjötta sinn í dag að ég tel að endurskoða þurfi fiskveiðistjórnarkerfið en á meðan við höfum það tel ég að það sama eigi að gilda yfir fólkið sem starfar innan þess, sömu reglur.

Ef við erum allt í einu komin með 200 báta flota sem getur veitt fleiri þúsund tonn af fiski án reglna um það, erum við farin að mismuna. Það er ekki endilega þannig að trillukarlinn sem ég tók sem dæmi af áðan sé á svokölluðum gjafakvóta, eins og hv. þm. Jón Magnússon kallar það, það getur vel verið að hann leigi kvóta. Á hann þá að leigja en ekki hinir? Er það ekki ósanngjarnt?

Hægt er að spyrja og fara út í alls konar þrætubókarlist í sambandi við þetta frumvarp endalaust. Frumvarpið breytir ekki fiskveiðistjórnarkerfinu eða afnemur það hvort sem það verður samþykkt eða fellt.