135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:35]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að fá tækifæri til að eiga hér skoðanaskipti við hv. þm. Bjarna Harðarson um efnahagsmál. Ég held að flestir þingmenn deili áhyggjum hans af stöðu mála með hv. þingmanni. Ég held að ég geti fullyrt að það er sammerkt með þingmönnum öllum að hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er. Hins vegar höfum við að sjálfsögðu mismunandi afstöðu til þess hversu alvarlegt málið er og ekki síður mismunandi afstöðu til þess hvernig við eigum að takast á við þau verkefni sem hér eru og blasa við.

Það kom berlega fram í umræðunni um fjárlög ársins 2008 þegar við vorum að vinna við þau í desember og afgreiða þau að skiptar skoðanir voru meðal manna um hvaða leiðir við vildum fara. Hjá hv. málshefjanda, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, komu fram eftir miklar óskir þar að lútandi áskoranir til hans um að leggja fram hugmyndir um það með hvaða hætti hann vildi grípa inn í fjárlagagerðina. Það komu fram tvær tillögur í þeim efnum. Önnur var sú að draga úr réttarbótum sem stjórnarmeirihlutinn á þingi var að ganga frá til aldraðra og lífeyrisþega. Hin leiðin var sú að draga úr samgönguframkvæmdum úti á landi. Á þær féllumst við ekki og skiptumst á skoðunum um það. Þetta var sú viðleitni sem þarna var haldið á lofti og ekki náðist samkomulag um.

Við höfum haldið því fram, þvert á yfirlýsingar minni hlutans, að þau fjárlög sem nú gilda og eru samþykkt og unnið verður eftir séu góð og traust og fjárhagur ríkissjóðs einnig. Úti á markaði eru aðstæður þannig að þar erum við með mjög sterkt fjármálakerfi, við erum með öflugt atvinnulíf, hátt atvinnustig. Hvernig sem við lítum á það er íslenskt efnahagslíf ágætlega í stakk búið til (Forseti hringir.) að takast á við erfiðleika í dag.