135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:37]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hv. þingmaður skuli koma upp í þessa umræðu með hliðsjón af því sem þingmaðurinn fór fram með í umræðu um fjárlög í desember. Víst er það svo að ég vék að því í ræðu um efnahagsmál í liðinni viku að ýmsar kennitölur í efnahagsmálum væru á ferð sem ýmsir gætu kallað sveiflu og auðvitað getur sveiflan verið mishá og mislág. Við þekkjum það úr tæknigreinum og líka úr hagfræði.

Þegar fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins komu á fund fjárlaganefndar gerðu þeir grein fyrir því, virðulegi forseti, að það væru óvissuþættir í efnahagsspánni og þeir væru taldir vera nokkru fleiri núna en áður. Ég vil hins vegar vísa til ræðu hæstv. forsætisráðherra í liðinni viku þar sem hann vék að því að það væri afar mikilvægt að við héldum ró okkar núna. Það er vissulega að draga úr einkaneyslu. Við finnum fyrir því, hvort sem það er, hv. þm. Bjarni Harðarson, í fatakaupum eða öðru. En það liggur alveg fyrir að menn eru að draga saman seglin í þessum efnum.

Ég vil ítreka að við höldum ró okkar. Það er vissulega kraftur og orka til staðar í íslensku hagkerfi, það er kraftur og orka til staðar hjá íslensku þjóðinni og ekki hvað síst í íslensku atvinnulífi. Íslenskt atvinnulíf þarf á því að halda núna, þingheimur góður, að við þingmenn stöndum við bakið á atvinnulífinu og það finni fyrir því að við séum að tala hlutina upp og tala þá áfram en ekki niður.