135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Þessi umræða er mikilvæg og ég held að við þyrftum að taka okkur miklu lengri tíma í hana á næstu dögum því að ástandið er grafalvarlegt. Ég er sammála því mati hv. þm. Péturs H. Blöndals að alþjóðlega fjármálakreppan er ekki Íslendingum að kenna. Það er rétt að ríkisstjórnin fái þar að bera af sér sakir en ég tel það ekki vera henni til framdráttar að geta svarið það af sér. Það er aftur á móti henni að kenna ef hún ætlar að hegða sér eins og ekki sé alþjóðleg fjármálakreppa. Það er grafalvarlegt mál. Það var að heyra á málflutningi Péturs H. Blöndals að hér þyrfti ekkert að gera því það væri allt í lagi svo fremi sem ástandið versnaði ekki úti í heimi. Nú ber öllum fréttum saman um að ástandið er að versna úti í heimi og hvað á þá að gera? Þá skulu menn bara bíða og hafa það hugfast að hér er giska gott kerfi.

Við erum hluti af alþjóðlegu fjármálakerfi. Við verðum að stýra okkar kerfi í takt við það sem er að gerast úti í heimi og við verðum að bregðast við aðstæðum jafnvel þó að þær séu ekki okkur að kenna. Það er eins og skólakrakkinn segir þegar allt er komið í óefni: Það er ekki mér að kenna að ég féll á prófinu. Það er ekki mér að kenna að ég kom of seint heim því að strákarnir plötuðu mig. Hann er skammaður samt. Hann situr samt í súpunni. (SKK: Hvað vilt þú gera?) Hvað vil ég gera? Það er góð spurning. Ég hef 27 sekúndur, Sigurður Kári.

Við þurfum fyrst og fremst ríkisstjórn sem getur talað um efnahagsmál. Ég held að núverandi ríkisstjórn geti það ekki. Ég held að hún geti ekki komið sér saman um neitt í efnahagsmálum. Við höfum vikulega yfirlýsingar frá hæstv. viðskiptaráðherra, sem ég sakna að hafa ekki í salnum í dag, þar sem hann segir að við skulum ganga í Evrópusambandið. Það er hans tillegg í efnahagsumræðuna. Síðan höfum við umræðu hæstv. forsætisráðherra og þingmanna stjórnarliðsins um það að þjóðinni og stjórninni beri að halda ró sinni. Hvað merkir það? Halda sama andvaraleysinu áfram? Ég segi: Þetta er stórhættulegt.

(Forseti (StB): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa ekki þingmenn úti í sal jafnvel þó að frammíköllin séu skemmtileg.)