135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:50]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að ræða efnahagsmálin og skoða þau þó að það sé kannski fullmikið að ætlast til að við bregðumst við mörkuðum dagsins með ákvörðunum ríkisstjórnar úr ræðustóli á sömu mínútu. Það er mikilvægt að hafa ástandið í heimsmálunum í huga en mér finnst ekki síður skipta máli að skoða það sem er að gerast hjá okkur á innanlandsmarkaðnum. Við erum að fá yfir okkur þessa dagana, bæði í gær og í dag, sennilega á annað hundrað uppsagnir í fiskvinnslu og sjávarútvegi.

Ég ætla hreinskilnislega að játa að það eru hlutir sem ég átti ekki von á að bæri að með þessum hætti. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um það, eða hæstv. sjávarútvegsráðherra, að skera niður þorskkvóta um þriðjung og fylgir þeirri ákvörðun í þeirri von að við getum byggt upp þorskstofna við landið að nýju. Því miður ætlar fiskvinnslan og útgerðin að bregðast þannig við að þeir ætla að tryggja sig. Þrátt fyrir þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar að fresta hækkunum á veiðileyfagjaldi, þrátt fyrir aðgerðir til að koma til móts við fiskvinnslufólk virðist útgerðin ætla að grípa strax til aðgerða og forða sjálfri sér frá hugsanlegu tapi — og ég segi hugsanlegu tapi vegna þess að útgerðin er ekki búin að fá á sig þennan niðurskurð enn þá.

Ég verð að segja það nákvæmlega eins og er og vera hreinskilinn að ég hef íhugað — hef þó verið talsmaður þess að gefa út um það yfirlýsingu að LÍÚ, eigendur kvótans í landinu, fái aukningu þegar þar að kemur ef af verður — að þeir fái þau skilaboð að ef þeir ætla að hegða sér með þessum hætti þá fái þeir hana ekki. Þeir ætla greinilega að „garantera“ sig með þeim hætti að fara í hráan niðurskurð nú þegar og tryggja að fjármagnið bjargist. (Gripið fram í.) Það er þar að auki, við fáum tækifæri til þess að ræða það, hv. þingmaður, á eftir. En ég vil bara vekja athygli á þeirri hugmynd að útgerðarmenn fái þau skilaboð að ef þeir ætla ekki að taka sameiginlega ábyrgð á því að koma okkur í gegnum þennan kvótaniðurskurð geti þeir tæplega gert kröfu um að fá aukningu á kvóta að nýju þegar þar að kemur. (Gripið fram í: Það er ekkert annað.)