135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:52]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum ekki að nota orðið „gaspur“ um þá umræðu sem hér fer fram, m.a. af hálfu okkar framsóknarmanna, um efnahagsmál. Það eru váleg veður í kortunum, sem allir viðurkenna hér, og ég er sammála þeim sem halda því fram að við þurfum að ræða þessi mál á ábyrgum nótum. En það var einmitt á þeim nótum sem við framsóknarmenn ræddum um fjárlög á síðasta hausti. Sú staðreynd að útgjaldarammi fjárlaga hækkaði um 20% á milli ára voru mjög skýr skilaboð frá ríkisstjórnarflokkunum. Trúlega höfum við ekki séð slíkar hækkanir frá því fyrir þjóðarsáttarsamninga og við framsóknarmenn vöruðum við þessu.

Nú þegar forustumenn í fjárlaganefnd Alþingis segja að við þingmenn eigum að hlusta á atvinnulífið og takast í hendur við atvinnulífið á erfiðum tímum vil ég benda ríkisstjórnarflokkunum á að þessir sömu aðilar, Standard & Poor´s, greiningardeildir bankanna, aðilar vinnumarkaðarins, Seðlabankinn o.fl., vöruðu ríkisstjórnarflokkana við því á hvaða vegferð þeir væru á haustdögum. Það er ekkert óeðlilegt að við framsóknarmenn bendum á að við erum vörslumenn ríkissjóðs.

Á hvaða vegferð erum við í þessum efnum? Halda menn að ýmsir veltuskattar eins og nú er ástatt í efnahagslífinu munu standast forsendur fjárlaga? Ég er ansi hræddur um ekki. Og þegar við horfum á gríðarlega útgjaldaaukningu á milli ára og minnkandi skatta inn í ríkissjóð er vá fyrir dyrum. Við ætlum okkur ekki aftur að steypa ríkissjóði í botnlausar skuldir. Það var alla vega ekki markmið síðustu ríkisstjórnar sem Framsóknarflokkurinn átti aðild að.

Við framsóknarmenn höfum haft uppi, bæði á haustdögum og nú, varnaðarorð um það hvert stefnir í þessum efnum og það er ekkert gaspur, hæstv. forseti.