135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:13]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og einn fremsti sérfræðingur okkar á sviði mannréttinda, hefur sagt og rökstutt með faglegum hætti að taka beri álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna mjög alvarlega og bregðast við því. Ég vek athygli á því að aukinn meiri hluti 18 sérfræðinga komst að þessari niðurstöðu og þessir sérfræðingar eru óháðir, starfa faglega og eru ekki bundnir þjóðríkjum sínum með skoðanir. Niðurstaðan er afdráttarlaus, það fer ekki á milli mála. Brotið er gegn 26. gr. alþjóðasamningsins, borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum, og þar með er brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands sem gengur lengra en þessi regla.

Það varðar þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar og það varðar heiður okkar og trúverðugleika á alþjóðavettvangi að fara að þessum niðurstöðum. Það gleður mig að heyra að annar tónn heyrist í hæstv. sjávarútvegsráðherra en forsætisráðherra sem mætti þessu með léttúð í ummælum á opinberum vettvangi. Það blasir hins vegar við að andvaraleysi leiðir okkur í ógöngur, það leiðir okkur í ógöngur ef við bregðumst ekki strax við. Það leiðir til óskipulagðra, stjórnlausra veiða og það gengur þá þvert á hugmyndir okkar í Vinstri grænum um sjálfbæra þróun, sjálfbærar veiðar. Það liggur fyrir að óskað verður endurupptöku á þessu máli fyrir Hæstarétti. Vandséð er að Hæstiréttur geti komist að annarri niðurstöðu en að taka upp þennan refsidóm og sýkna þá tvo aðila sem hlut áttu að máli.

Hvaða afleiðingar hefur það í íslenskum lögum sem ríkisstjórnin er bundin af? Jú, það getur hver og einn farið til veiða. Hér verður að bregðast skjótt við og ég minni á að hér liggur fyrir frumvarp vinstri grænna um heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Aðalatriðið er þó að ná sátt í þessu erfiða og viðkvæma deilumáli.