135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:15]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Hæstv. forseti. Úrskurður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna beinir til okkar þeim orðum að breyta lögum um stjórn fiskveiða í þá veru að aðferðinni við að deila út aflaheimildunum verði breytt. Í öðru lagi er úrskurðurinn á þann veg að greiða beri þeim Erni Steinssyni og Erlingi Haraldssyni, félaga hans, bætur. Íslendingar hafa skrifað undir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og því er einsýnt að við hljótum að bregðast við eins og fram hefur komið hér.

Ég vil minna á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að tryggja skuli stöðugleika í sjávarútvegi og að gerð verði sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða. Hér eru því komin tvö tilefni til þess að skoða fiskveiðistjórnarkerfið fyrir utan það ástand sem nú blasir við, að útgerðin eða fiskvinnslan er að segja upp fólki í hundraðavís. Ég spyr: Er útgerðin stikkfrí? Það er búið að fella niður veiðileyfagjald um hundruð milljóna til útgerðarinnar vegna niðurskurðarins, það er búið að hækka atvinnuleysisálag til fiskverkafólks en það er eins og ekkert af því eigi að koma verkafólkinu til góða. Útgerðin segir bara: Það er búið að skera svo mikið niður. Í sumum tilvikum er hinn raunverulegi niðurskurður ekkert farinn að virka.

Ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að framkoma útgerðarinnar og fiskvinnslunnar hvað varðar niðurskurðinn gefur einnig tilefni til þess að við förum að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða.