135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:18]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið ljóst í samfélaginu um langt skeið að kvótakerfið hefur bæði kosti og galla. Fyrir daga kvótakerfisins var staðan mjög erfið í sjávarútvegi, það var, má segja, allt á heljarþröm, mikil gjaldþrot og erfið staða. Það er því mjög auðvelt að færa rök fyrir því að kvótakerfið hafi svo sannarlega skilað mjög mörgu góðu inn í þetta samfélag. Við framsóknarmenn höfum því viljað styðja það kerfi í megindráttum en þó höfum við alltaf sagt að sníða beri af þá agnúa sem í ljós koma.

Niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna kemur okkur vissulega á óvart. Við höfum viðurkennt þessa nefnd sem kæruleið og við verðum að sjálfsögðu að taka mark á henni og auðvitað teljum við niðurstöðu hennar alvarlega. Það er því mjög ankannalegt að hlusta á forustumenn stjórnarflokkanna sem hafa talað út og suður í þessu máli. Hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur talað um að það bæri að taka niðurstöðuna alvarlega og hefur talað um að endurskoða þurfi kerfið. Bæði hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og sjávarútvegsráðherra hafa heldur talað í aðra átt um að við séum ekki bundin af þessari niðurstöðu, hún hafi e.t.v. ekki mikið gildi og líklega þurfi ekki að breyta lögum.

Ég vil fagna því að tónninn í hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni, er annar í umræðunni núna. Hann segist taka þessa niðurstöðu alvarlega og dregur það fram að ríki reyni almennt að fylgja niðurstöðunum eftir. Ég vil gjarnan, virðulegi forseti, spyrja: Hvað er fram undan? Þetta er stórt mál, þetta er erfitt mál og það er mikilvægt og þess vegna er ljóst að við verðum að ná einhverri samstöðu um hvað skal gera. Þetta er mikið deilumál og hefur verið það um langan tíma í pólitík.

Það þarf að skila einhverjum niðurstöðum 11. júní um það hvað við ætlum að gera. Þingið fer heim 29. maí og kemur ekki aftur saman fyrr en 2. september. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að halda á þessu máli þannig að við getum sameinast um einhverja lausn? Mun þingið verða dregið fram yfir 11. júní til þess að klára þetta mál eða hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fara í málið praktískt?