135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:20]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra þingforseti. Það var kannski ekki við öðru að búast hjá sjávarútvegsráðherra en útúrsnúningum og rangfærslum þegar hann fór að tala um fiskveiðistjórnarkerfi víða úti um heim. Reyndar eru aflamarkskerfi víða notuð en þar fá nýir aðilar sama aðgang og þeir sem fyrir hafa verið, það hefur verið skipt upp aftur. Ef þú þekkir til kerfa eins og í Bretlandi og Ástralíu og Kanada — þar er aflamarkskerfi til en það er ekki svo heilagt að um aldur og ævi, um 24 ára skeið, séu það alltaf sömu aðilar sem hafi aðgang að því. Þeir eru nefnilega ekki að brjóta mannréttindi eins og við höfum verið að gera í 24 ár.

Ég fagna því að Samfylkingin ætlar að standa í ístaðinu, a.m.k. hafa þeir talað þannig að það má skilja að þeir vilji að farið verði að tillögum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Við skulum vona að þeir haldi sig við það en detti ekki af baki til að verja góða og þægilega stóla heldur verji jafnrétti og atvinnufrelsi. Það þarf ekkert að skoða stöðu sjávarbyggðanna, það þarf ekkert að rannsaka það, það hefur komið fram í fréttum síðustu daga hvað er í gangi víða hringinn í kringum landið. Ég vil bara benda hv. þingkonu Siv Friðleifsdóttur á að það eru fleiri gjaldþrot eftir 1984 í sjávarútvegi en voru fyrir þann tíma. Þessar staðreyndir liggja fyrir í bók eftir Guðbjörn nokkurn Jónsson.

Ég vil að lokum segja: Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.