135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:29]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að taka þetta mál upp hér á Alþingi. Íslenska kvótakerfið er ekki fullkomið, kerfið þarfnast stöðugrar endurskoðunar við og stjórnvöldum ber skylda til að bæta það og gæta þess að það sé í samræmi við alþjóðareglur.

Niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem þó segir að verndun takmarkaðrar auðlindar í formi fiskstofna sé lögmæt, er um margt athyglisverð og til þess fallin að fara verður gaumgæfilega yfir hana. Ég tek undir þau orð sem hafa fallið hér að okkur ber að taka álitið alvarlega og ríki sem vilja styðjast við lögfestu í vinnubrögðum sínum hljóti að gefa þessu alvarlegan gaum.

Mér finnst samt ummæli hæstv. sjávarútvegsráðherra, um að álitið sé ekki ýkja skýrt og illa rökstutt, ansi undarleg. Mér finnst líka undarleg ummæli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur um að álitið sé torskilið, fjarri sannleikanum. Prófessor Björg Thorarensen sagði einfaldlega að ýmislegt mætti betur fara og að álitið væri á vissan hátt knappt. Hún sagði ekki að það væri óskýrt og illa rökstutt og að ekki ætti að fara eftir því og það eru þau orð sem prófessorar hafa látið falla.

Það vekur furðu vegna þess að í umræðunni um kristilegt siðgæði voru rök sjálfstæðismanna fyrir því að taka það út úr íslensku skólakerfi dómur Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í Noregi. Það vill bara svo skemmtilega til að sá dómur fjallar um allt annað en það að það hafi þurft að taka kristilegt siðgæði út úr íslensku menntakerfi. Ég hvet stjórnarþingmenn einfaldlega til þess að fara gaumgæfilega yfir þann dóm. Það ber að taka álit mannréttindanefndarinnar alvarlega og dóma Mannréttindadómstólsins, (Forseti hringir.) og það þarf að fara yfir á á yfirvegaðan og rökstuddan hátt.