135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:34]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga mál. Það er nauðsynlegt að við ræðum það á Alþingi, m.a. til að átta okkur á því með hvaða hætti við viljum svara þessari skoðun og áliti mannréttindanefndarinnar.

Hér var sagt að kveðið hafi við nýjan tón af minni hálfu í þessari umræðu. Ég get ekki fundið það, ég sagði alveg frá fyrsta degi að taka bæri þetta álit alvarlega. Ég gerði það í sjónvarpi og blöðum. Það liggur því fyrir skjalfest hvað mig áhrærir að ég hef talið allar götur frá því að álitið var kunngert að það þyrfti að taka alvarlega. Þess vegna segi ég að við eigum að gefa okkur þann tíma sem þarf. Að sjálfsögðu ekki lengur en það, en þann tíma sem nauðsynlegur er til að fara yfir málið. Ef við bregðumst við nánast umhugsunarlaust, eins og mér finnst sumir vilja vera láta í þessari umræðu, værum við auðvitað ekki að taka álitið alvarlega. Þá værum við að segja að hægt væri að bregðast við því án þess að hugsa sig mikið um. Ég held að það sé ekki rétt og ekki sé hægt að gera það þannig.

Við verðum að velta því aðeins fyrir okkur hvort þetta kerfi framseljanlegra aflaheimilda sem byggir á veiðireynslu tiltekinna ára standist. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að dómstólar hafa verið að fjalla um þetta mál sérstaklega. Þeir hafa m.a. komist að þeirri niðurstöðu að það að úthluta mönnum aflaheimildir á grundvelli veiðireynslu sem fundin hefur verið út frá einhverju sérstöku tímabili, standist að sumu leyti og annað standist ekki. Þeir eru með öðrum orðum að kveða mjög skýrt á um að það standist vel að nota veiðireynsluna en aðeins ef það er gert á efnislegum forsendum.

Hér hefur líka verið sagt að málið sé mjög skýrt. Ég get ekki tekið undir það. Ég vek athygli á því sem prófessor Björg Thorarensen sagði í Morgunblaðinu um daginn. Hún sagði rökstuðninginn mjög knappan og að mjög erfitt væri að draga almennar ályktanir af niðurstöðunni. Fyrir utan það heyrum við menn tala með ýmsu móti í þessari umræðu. Sumir segja að þetta þýði að þjóðin eigi að fá þennan rétt eins og það sé alveg skýrt, aðrir tala um byggðirnar og enn aðrir tala um að það séu sjómennirnir. Allir sjá það auðvitað að þetta allt (Gripið fram í.) saman stenst ekki. Menn verða þá að velja eitthvað af þessu ef menn ætla að gera þessar breytingar. Með öðrum orðum, við þurfum að fara (Forseti hringir.) betur ofan í þetta mál. (Gripið fram í: Hættu þessum útúrsnúningum.)