135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[14:37]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem ég flyt hér er í raun tengt frumvarpi sem ég flutti fyrr á þinginu um meðferð sakamála, því að það var ákveðið við endurskoðun á lögunum um meðferð opinberra mála að taka kaflann um nálgunarbann út úr þeim lagatexta og setja hann fram með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi.

Ég veit að hv. allsherjarnefnd er með frumvarpið um meðferð sakamála til meðferðar og hv. þingmönnum er því kunnugt um hvernig að þessum málum hefur verið staðið af réttarfarsnefnd. Skýringin á því að nefndin og ráðuneytið ákváðu að fara þessa leið er sú að nálgunarbann er ekki ráðstöfun sem gripið er til í þágu rannsóknar eða meðferðar á sakamáli, heldur er um að ræða forvörn sem er ekki síst ætlað að koma í veg fyrir að afbrot verði framið. Af þeirri ástæðu þykir rétt að kveða á um þetta úrræði í sérlögum.

Ákvæði frumvarpsins eru í flestum atriðum samhljóða gildandi reglum um nálgunarbann. Veigamestu breytingarnar sem hér eru lagðar til koma fram í reglum 1. mgr. 2. gr. um aðdraganda að kröfu lögreglu um slíkt bann og heimildir þess, sem leita til hennar í þessu skyni, til stjórnsýslukæru ef lögreglu þykir ekki efni til að bera kröfuna fram.

Fram hefur komið sú gagnrýni að ákvæðið í núverandi mynd sé of þungt í vöfum og til þess fallið að letja brotaþola að fara fram á nálgunarbann auk þess sem tillögur frumvarpsins gangi ekki nógu langt. Fari betur á því að ákærandi taki ákvörðun um nálgunarbann en ekki dómari að beiðni lögreglunnar eins og í núgildandi lögum segir og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Dómari geti síðan endurskoðað þá ákvörðun.

Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum voru sérstök ákvæði um nálgunarbann fyrst færð í lög, samanber lög nr. 94/2000. Í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að þegar haft sé í huga þvingunareðli nálgunarbanns og þær hömlur sem felast í slíku banni þyki rétt vegna réttaröryggis að fela dómstólum að taka ákvörðun um hvort úrræðinu verði beitt. Málsmeðferð fyrir dómi leggi ríka áherslu á alvarleika þessara mála og sé því frekar til þess fallin að hafa þau áhrif að látið verði af ásókn í garð þess sem njóta á verndar.

Virðulegi forseti. Ég treysti því að hv. allsherjarnefnd muni skoða þau álitaefni sem ég hef nefnt sérstaklega við meðferð frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til nefndarinnar og 2. umr.