135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[14:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef nokkrum sinnum flutt frumvarp til laga sem hefur varðað mál er tengist þessu frumvarpi um nálgunarbann. Frumvarpið hefur verið flutt sem breyting á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum og varðar brottvísun og heimsóknarbann.

Ákvæði þessara laga, þ.e. nálgunarbann, þar sem er lagt er bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á, hefur verið notað vegna mála af því tagi sem hér er fjallað um og til þess að reyna að stemma stigu við ákveðinni tegund kynbundins ofbeldis, þ.e. þegar konur eru ofsóttar, oft af fyrrum maka sínum eða barnsfeðrum. Þetta úrræði, sem ævinlega er neyðarúrræði, hefur verið beitt með ákveðnum hætti hér á landi og er fyrirmyndin fengin úr löggjöf frá nágrannalöndum okkar.

Sjónarmið mitt og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið það að í tilfellum af því tagi sem ég nefndi sé þetta úrræði ekki nægilegt. Það sé full ástæða til að skoða aðra útfærslu á nálgunarbanninu, þ.e. ekki kannski endilega á nálgunarbanninu sem slíku eins og því er lýst í 1. gr. þessa frumvarps, heldur til að lögregla hafi þau úrræði sem telja má að virki til þess að koma af alvöru þeim til bjargar sem beittir eru kynbundnu ofbeldi inni á heimilum sínum, svokölluðu heimilisofbeldi. Þess vegna hef ég flutt frumvarp sem gerir ráð fyrir því að lögregla fái í hendur úrræði til að fjarlægja ofbeldismann af heimili í stað þess úrræðis sem lögregla ævinlega grípur til í dag, þ.e. að fjarlægja fórnarlamb ofbeldismannsins og jafnvel börn af heimili og setja konu og börn í athvarf, Kvennaathvarfið, gera þau að flóttamönnum í eigin landi, burtræk af eigin heimili á meðan ofbeldismaðurinn hreiðrar áfram um sig inni á heimilinu.

Nú er það svo að það er fyrirmynd fyrir því að beita brottvísunarbanni og heimsóknarbanni af því tagi sem ég hef áður mælt fyrir hér. Málið hefur fengið talsvert mikla umfjöllun í allsherjarnefnd. Þegar við höfum farið í mál af þessu tagi sem snerta kynbundið ofbeldi hef ég ævinlega hreyft því hvort nefndin gæti ekki tekið þetta mál til sérstakrar skoðunar og hvort við gætum ekki sameinast um að koma ákvæði af þessu tagi inn í lög. Umsagnir um málið hafa verið jákvæðar og kvennahreyfingarnar hafa kallað sérstaklega eftir því að ákvæði af þessu tagi verði lögfest.

Á síðasta vetri afgreiddi allsherjarnefnd málið, sem þá var þingskjal 71, og beindi því til Alþingis að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar sem Alþingi samþykkti. Í október síðastliðnum spurði ég hæstv. dómsmálaráðherra hver hefðu orðið afdrif þess máls hjá ríkisstjórninni. Hann svaraði því til að það hefði verið til skoðunar í tengslum við þá aðgerð sem hér er nú mælt fyrir, þ.e. þá ákvörðun að skilja ákvæðið um nálgunarbann frá almennum hegningarlögum að tillögu refsiréttarnefndar, en gaf ekkert út á það þá með hvaða hætti þetta mál yrði lagt fram. Við sjáum það nú og vitum að ríkisstjórnin hefur ekki viljað taka þau ákvæði sem frumvarp mitt um brottvísun og heimsóknarbann laut að inn í þetta frumvarp. Mér þykir það mjög miður.

Ég boða það nú úr þessum ræðustól og í þessari ræðu að ég mun flytja breytingartillögu við þetta frumvarp þar sem ég mundi gera ráð fyrir því að við 1. gr. bættist texti sem væri eitthvað á þá lund að heimilt væri að vísa manni brott af heimili sínu og nánasta umhverfi þess og banna honum að koma þangað aftur í tiltekinn tíma ef rökstudd ástæða væri til að ætla að hann mundi beita náinn aðstandanda ofbeldi eða hóti ofbeldi eða sýni framferði sem spilli mjög líkamlegu heilbrigði, andlegu heilbrigði, heilsu eða friði þess manns eða barns sem í hlut á. Sömuleiðis að brottvísun af heimili og heimsóknarbann samkvæmt 2. mgr. geti gilt í allt að 10 sólarhringa og beri að skilgreina til hvaða svæðis sú brottvísun eða það heimsóknarbann nái. Lögregla hafi þetta úrræði í sínum höndum og skuli síðan innan eins sólarhrings vísa ákvörðun sinni til héraðsdómara sem kanni ástæður fyrir beiðninni og staðfesti ef rökstuðningur er fullnægjandi, en felli niður eða breyti að öðrum kosti.

Fyrirmyndin að þessu ákvæði er sótt til Austurríkis og í greinargerð með því frumvarpi sem ég nefndi áðan var rakin saga þessa ákvæðis og hvernig það hefur breiðst út um Evrópu. Núna er það komið í lög á flestum ef ekki öllum Norðurlöndunum og eftir því sem ég hef lesið mér til virðist ákvæðið reynast afar vel. Lögreglan í Austurríki vann með löggjafanum á sínum tíma við það að útfæra reglurnar sem varða þetta ákvæði og þessa heimild. Þær hafa verið fyrirmynd á Norðurlöndunum og annars staðar þar sem þetta ákvæði hefur verið leitt í lög og þar sem ég hef kynnt mér hefur það reynst afar vel.

Það er auðvitað afar miður að beita þurfi úrræðum af því tagi sem hér um ræðir en það er skoðun mín að meðan konur eru jafnútsettar fyrir ofbeldi og raun ber vitni og eru ekki einu sinni öruggar inni á heimilum sínum og ekki börn þeirra heldur sé skynsamlegt, og í raun algjörlega nauðsynlegt til að gæta mannréttinda þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, að úrræði af þessu tagi sé til staðar.

Ég treysti því og þykist vita að allsherjarnefnd muni taka þetta atriði og þessa hugmynd mína til sérstakrar umfjöllunar við meðferð þessa máls þegar fjallað verður um það í nefndinni. Ég geri engar athugasemdir við þá ráðstöfun sem hæstv. ráðherra hefur talað fyrir að úrræðið eða nálgunarbannið sé tekið með þessum hætti inn í sjálfstæða löggjöf. Ég tel rökin fyrir því vera sjálfsögð og skiljanleg. Það sem ég hef við málið að athuga er einungis það að ég tel nauðsynlegt að setja þessa viðbót í það.