135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:06]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Á þessu stigi málsins ætla ég fyrst og fremst að fjalla um málið út frá lagatæknilegum eða lagasetningaraðferðum sem við búum við á Íslandi. Ég hef haft lítinn fyrirvara. Frumvarpið ber brátt að inn á þing og það er lítill fyrirvari til undirbúnings þannig að ég geri ekki miklar efnislegar athugasemdir við frumvarpið á þessu stigi en mun auðvitað grandskoða það í allsherjarnefnd þegar það kemur til umfjöllunar þar.

Það vekur athygli mína að það er eins og svo mörg önnur frumvörp sem koma frá Stjórnarráðinu — og það á ekkert sérstaklega við um dómsmálaráðuneytið, það á við öll ráðuneyti — að vera því marki brennd að vera samin í ráðuneytunum og vera „eins manns verk“ sem ég kalla stundum. Aðferðin við að semja slík frumvörp hefur ekki verið í samræmi við það sem ég kalla góða frumvarpssmíð. Reyndar er komin út handbók núna sem mælir fyrir um hvernig er staðið að góðri frumvarpssmíð og ég vænti þess að ráðuneytin í framtíðinni taki upp þær verklagsreglur sem þar eru lagðar upp. Þá er auðvitað fyrst að greina þörfina á lagasetningu og ég hygg að hún hafi verið fyrir hendi hér og efast ekkert um hana. Í öðru lagi þarf að leita til umsagnaraðila, þeirra sem hafa hagsmuni að gæta eða sem þau snerta mest. Ég nefni Alþjóðahúsið og fleiri aðila. Það mundi, eins og handbókin mælir fyrir um, frú forseti, létta okkur verulega störfin í nefndinni og gera nefndarstörfin skilvirkari. Ég hefði því kosið að framkvæmdarvaldið leitaði umsagna hagsmunaaðila í hvert skipti sem það væri í frumvarpssmíð. Það er einu sinni þannig að betur sjá augu en auga í þessum tilvikum eins og öllum öðrum í lífinu. Ég hefði líka kosið að í málum sem þessum og öðrum veigameiri málum væru settar á stofn nefndir sem sæju um verkið eða það sem ég hef kynnst til að mynda í Noregi þar sem maður sér að gerðar eru svokallaðar „utredninger“ eða skýrslur um mál, þar sem greining á málinu fer fram, kostum og göllum gildandi laga og þeirri þörf sem er á breytingum og upp úr þeirri vinnu er svo unnið lagafrumvarp.

Annað lagatæknilegt atriði eða frumlagaatriði ég vil nefna hér að gefnu tilefni og því beini ég ekkert frekar að hæstv. dómsmálaráðherra en öðrum ráðherrum, heldur sem almennri gagnrýni á lagasetningargerð á Íslandi. Þessi gagnrýni hefur komið fram áður, hún snýr að því sem ég kalla valdframsal eða að menn framselji löggjafarvaldið til framkvæmdarvaldsins. Stundum gengur það svo langt að lögin eru nánast eins og viljayfirlýsingar sem framkvæmdarvaldið fyllir svo út í með efnisreglum, með setningu reglugerða. Frumvarpið sem hér er til umræðu er að nokkru leyti með því marki brennt að þar eru m.a. í 2. gr., 3. gr., 5. gr., 6. gr. og víðar heimildir til ráðherra til að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hvaða gögn og vottorð skuli lögð fram, um undanþágur frá kröfum um dvalarleyfi, um reglur um heimild til útlendinga til að koma til landsins, um för yfir landamæri og fleiri slík atriði. Ég hygg að grundvallaratriði í slíkum reglum ættu fremur heima í löggjöf en í reglugerð, þannig að meginlínurnar séu dregnar upp í löggjöfinni en útfærsluatriði, minni háttar framkvæmdaratriði komi fram í reglugerðum. Þetta segi ég almennt og þetta gildir um þetta frumvarp og gildir allt of oft um frumvörp sem hér koma til umfjöllunar. Þetta hafa fræðimenn á sviði lögfræði gagnrýnt sem valdframsal á löggjafarvaldi til framkvæmdarvalds.

Að því er varðar efnisatriði sem ég vil víkja lítillega að og meira spyrja en hitt. Ég fagna því auðvitað að 24 ára reglan er úti, ég fagna því sérstaklega og minni á það að bæði á fyrri þingum og eins á þinginu í vetur hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutt frumvörp um afnám þessarar reglu og fleira. Ég minni á frumvarp hv. varaþingmanns Pauls Nikolovs í þessu sambandi sem hann mælti fyrir á þingi fyrir jól.

Ég hef haft áhyggjur af einum þætti þessara útlendingalaga og hef reyndar flutt frumvarp til breytinga á útlendingalögum sem það varðar, þ.e. um konur, sérstaklega konur sem dveljast hér á landi án atvinnuleyfis í krafti hjúskapar eða samvistar eins og mælt er fyrir í e-lið 5. gr. Það liggur fyrir að þessar konur eru fremur fórnarlömb ofbeldis en aðrar. Hlutfall erlendra kvenna sem sækja Kvennaathvarfið vegna ofbeldis er talsvert hærra en hlutfall þeirra meðal þjóðarinnar, þ.e. fjöldi þeirra á Íslandi. Þetta er alvarlegt vandamál sem Alþjóðahúsið, Rauði krossinn og fleiri hafa tekið á. Ég hefði kosið og hef reyndar sagt að hæstv. dómsmálaráðherra geti sett reglur um undanþágur frá þessum kröfum. Ég veit ekki hvernig þær reglur munu hljóða en ég vildi beina þeirri fyrirspurn til dómsmálaráðherra hvaða augum hann líti á þetta vandamál, sem er til staðar, og hvort í væntanlegri reglugerð dómsmálaráðuneytisins verði sérstaklega tekið tillit til þeirra kvenna sem búa við heimilisofbeldi og eru í gíslingu dvalarleyfis í þrjú ár. Ef þær skilja við manninn sinn þurfa þær að fara heim og víða háttar svo með konur sem hingað koma, og það eru sérstaklega konur sem koma hingað frá Tælandi og Asíu, að þær höfðu brennt allar brýr að baki sér og áttu ekki að neinu að snúa. Þetta er auðvitað mannúðarmál og þar fram eftir götunum. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um afstöðu hans til þessa þáttar þar sem ég þykist vita að hann þekki þetta vandamál til hlítar.

Annað atriði sem ég vildi varpa hér fram og beina til hæstv. dómsmálaráðherra er varðandi framfærsluna. Ég les það ekki alveg út úr lögunum en mér sýnist framfærsluheimildir vera rýmkaðar. En þegar svo hagar að barn kemur til landsins með foreldrum sínum, segjum 15 ára gamalt, og sækir skóla, en eftir að það varð 18 ára þurfti það að sýna sjálfstæða framfærslu því það hætti að vera barn. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra hvort það sé að einhverju leyti tekið á þessu eða hvort hann hyggist taka á þessu í reglugerð, þannig að barn sem verður 18 ára og því ekki lengur barn samkvæmt skilningi laganna en er nú samt oft barn enn í mínum skilningi, hvort yfirlýsing foreldra barnsins eða þessa 18 ára unglings nægi ekki sem trygging fyrir því að skilyrði um framfærsluna sé fullnægt. Þetta er mikilsvert atriði og brýnt að það sé tryggt í lögunum. Hér er um alvörubúsetu foreldra að ræða en dvalarleyfið er ekki komið hjá barninu og þetta skiptir miklu máli. Allir venjulegir foreldrar sjá um framfærslu barna sinna sem eru í skólum, auðvitað að því gefnu að þau vinni líka og taki til heima hjá sér og þar fram eftir götunum.

Í þriðja lagi vil ég spyrja dómsmálaráðherra, og það er kannski missýn mín eða ég hef ekki í hraðri yfirferð rekið augun í það, hvort þarna sé einhverja breytingu að finna hvað varðar lífsýnatöku á útlendingum sem koma hingað til lands. Hvort þetta standi enn inni og ég bið forláts ef það hefur farið fram hjá mér í hinum knappa yfirlestri mínum.