135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:13]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég þakka þessar góðu umræður um frumvarpið og heyri það á öllu að hv. allsherjarnefnd mun fara gaumgæfilega yfir einstakar greinar þess og ætla ég ekki að staldra við það í einstökum atriðum. Þegar hv. þm. Atli Gíslason segir að það sé stefna samkvæmt handbók Stjórnarráðsins, lagasmíð, að leita umsagna sem víðast áður en frumvarp kemur fyrir þingið þá er það rétt. Ég tel það hins vegar mikið álitamál fyrir þingmenn að hafa þessa skoðun því að ef til vill kemur framkvæmdarvaldið með lagafrumvarp inn í þingið sem búið er að leita allra umsagna um og fá allar skoðanir á. Þá verður búið að binda hendur framkvæmdarvaldsins og jafnvel löggjafans á þann veg að erfitt verður og þungt í vöfum fyrir þingmenn að koma með sín sjónarmið varðandi einstök frumvörp. Ég hefði haldið að það eigi af hálfu þingsins að leggja áherslu á að svigrúm nefnda til að leita álits og umsagna sé sem mest þannig að umræður geti farið fram í þinginu varðandi einstök atriði án þess að umsagnaraðilar séu endilega búnir að binda sig við ákveðna skoðun áður en málið kemur inn í þingið. Ég er mjög undrandi á að þingmaður skuli tala þannig að best sé að framkvæmdarvaldið hafi dauðhreinsað mál áður en það kemur inn í þingið til að þingið þurfi ekkert að koma að málinu. Auðvitað þarf að hafa ákveðið samráð við gerð lagafrumvarpa en ég sé ekki að það eigi að vera markmið að framkvæmdarvaldið dauðhreinsi mál þannig að það sé í raunverulega ekkert eftir fyrir þingnefndir annað en að stimpla þau þegar þau koma inn í þingið.

Það er líka mjög ósanngjarnt af hv. þingmanni að tala þannig um frumvarpið eins og verið sé að auka heimildir til reglugerðarútgáfu og regluútgáfu. Þvert á móti er verið að færa inn í lög ýmis ákvæði sem hafa verið í reglugerð til að unnt sé að fjalla um þau efnislega í þinginu. Þá er verið að taka regluheimildir frá Útlendingastofnun og færa yfir í ráðuneyti í sumum tilvikum sem gerir það að verkum að í þinginu er hægt að kalla ráðherra til ábyrgðar sem er mun erfiðara þegar stofnanir gefa út reglur. Ég hygg því að þetta byggist á ákveðnum misskilningi.

Hv. þingmaður spurði um hvort ákvæði væru í lögum varðandi konur sem byggju við sérstakt harðræði en ekki er neitt ákvæði í frumvarpinu varðandi það mál og ekki heldur varðandi lífsýni. Eins og fram kom í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur hef ég gefið henni yfirlýsingar um að í reglugerð verði sett ákvæði þar sem fjallað verður um framfærslu námsmanna. Þeim verður gert kleift að byggja framfærslu á föstum framlögum frá fjölskyldu auk þess sem miðað verður við eitthvað lægri framfærslufjárhæð en þegar aðrir útlendingar eiga í hlut. Það er því komið til móts við það sjónarmið. Frumvarpið tekur mjög ríkt tillit til hagsmuna nemenda eins og hér hefur komið fram, og þá líka þeirra sem vilja stofna til aukinnar starfsemi í landinu með þátttöku nemenda erlendis frá, það verður auðveldað þegar frumvarpið verður að lögum.

Í máli hv. þm. Ólafar Nordal kom fram að ýmis ákvæði eru í frumvarpinu sem auðvelda eiga fyrirtækjum að ráða til sín sérhæft starfsfólk. Þingmaðurinn vakti sérstaka athygli á því að gert er ráð fyrir einfaldari afgreiðsluháttum þegar um er að ræða fyrirtæki sem sýnt hafa í samskiptum við Útlendingastofnun að þau framfylgi mjög vel öllum þeim reglum sem um þessi mál gilda, þá sé hægt að taka upp sérstaka samskiptahætti þar um. Þetta er fordæmi m.a. við tollafgreiðslur. Þannig aðferðum er beitt af hálfu tollayfirvalda við fyrirtæki, byggt á ákveðinni reynslu, og síðan eru gerðar stikkprufur, ef þannig má að orði komast, til að kanna hvort ekki sé farið að öllum reglum. Almennt séð gengur þetta fyrir sig án þeirrar skriffinnsku sem annars getur einkennt slíkar afgreiðslur.

Ég hef vikið að máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur varðandi framfærslu. Annað sem hún sagði er þess eðlis að ég þarf í sjálfu sér ekki annað en taka undir það sem í frumvarpinu stendur. Fram kom í andsvörum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar við ræðu hv. þingmanns að ákveðinn misskilningur ríkir þegar menn fjalla t.d. um 7. gr. frumvarpsins, þar er ekki verið að tala um alla útlendinga sem koma til landsins. Eins og ég hef sagt snýst frumvarpið að megindrætti til um þá útlendinga sem ekki falla undir EES-reglurnar og það er grundvallarmisskilningur, finnst mér, í málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og hv. þm. Jóns Magnússonar þegar þeir ræða þessi mál. Það er eins og þeir átti sig ekki á efnisreglum EES-réttarins varðandi frjálsa för og þær ríku skyldur sem lagðar eru á okkur með EES-samningnum. Frumvarpið snýst að mestu leyti um þá útlendinga sem eru utan EES-svæðisins, m.a. 7. gr. og aðrar greinar sem hér hafa verið nefndar til sögunnar. Menn verða að hafa það í huga þegar um þetta er fjallað. Stundum þegar ég heyri hv. þingmenn Frjálslynda flokksins fjalla um þessi mál þá dettur mér í hug hvers vegna þeir leggja ekki til að við segjum upp EES-samningnum til þess að þeir nái fram markmiðum sínum. (Gripið fram í.) Það er það sem þeir þurfa að gera til að þessi markmið náist fram því að við erum með þeim samningi og öllum þeim skuldbindingum sem við gengumst undir með aðildinni að EES — eins og ég vék að og var eitt helsta umræðuefni í þinginu á sínum tíma, það var spurningin um frjálsa för. Við tókum þá ákvörðun og ef menn vilja hverfa frá henni verða þeir að leggja til að við segjum upp EES-samningnum.

Að talað sé um Schengen í þessu sambandi sem eitthvert höfuðatriði er alger misskilningur. Að tala um að Schengen sé bara gæsla ytri landamæra Schengen-svæðisins er líka alger misskilningur. Að tala um að við getum tekið upp það sama og Bretar og Írar er líka alger misskilningur. Þeir eru í Evrópusambandinu og sem aðilar að því hafa þeir allt aðra aðkomu að þessu lögreglusamstarfi en við gætum nokkurn tíma haft utan Schengen. Ef við færum úr Schengen hefðum við enga aðkomu að þessum gagnagrunnum og samstarfi sem mótað hefur verið og það er miklu öflugra en að skoða passa hjá manni þegar hann gengur í land. Hægt er að gera miklu nánari greiningu á komu manna til landsins í gegnum aðild okkar að Schengen og þeim gagnagrunni sem við höfum aðild að en með þessu og staðreynd er að Bretar og Írar sækjast mjög eftir að komast inn í þessa gagnagrunna í gegnum Evrópusambandið. Það er tilhneiging hjá Evrópusambandinu til að skilgreina Schengen-samstarfið þrengra en ella væri til að þessi ríki komist inn í gagnagrunnana. Við stöndum að sjálfsögðu gegn því. Við viljum að við njótum aðildarinnar að Schengen að þessu leyti því að Schengen-samstarfið hefur að mínu áliti breyst í öryggissamstarf gegn skipulagðri glæpastarfsemi, öryggissamstarf til að tryggja öryggi borgaranna við núverandi aðstæður í þjóðfélögum okkar. Þeir sem koma hingað í ræðustól og tala um málið eins og gert er af hálfu Frjálslynda flokksins, segja: Við eigum að fara úr Schengen til að bjarga málum. Það er þó alger misskilningur. Þeir eiga frekar að segja: Við eigum að fara úr EES og loka landinu og hætta þátttöku í þessu alþjóðlega samstarfi sem hefur dugað okkur vel en hefur sínar skuggahliðar sem við verðum takast á við og eigum betra með að takast á við sem aðilar að Schengen en ella væri. Það bið ég menn um að hafa í huga og bið þá jafnframt um að kynna sér hvað þetta er og um hvað frumvarpið snýst. Það snýst um þá sem eru utan EES-svæðisins og það snýst um hvernig við getum verið virkir þátttakendur í því gæslustarfi sem fram fer á grundvelli Schengen og spurningin er hvort við höfum gengið nógu langt? Á ég að koma með tillögur um aðild að Prüm-samkomulaginu sem er um lögreglusamstarfið og gengur enn lengra en við höfum gert núna? Það er álitaefni sem ég velti fyrir mér og kann að koma fyrir þingið þannig að við höfum ýmsa möguleika sem við hefðum ekki ef við værum ekki í Schengen. Við værum ekki aðilar að Europol ef við værum ekki í Schengen. Við værum ekki aðilar að samstarfi evrópskra saksóknara ef við værum ekki í Schengen. Við værum ekki aðilar að sameiginlega evrópska lögregluskólanum ef við værum ekki í Schengen. Við værum ekki aðilar að sameiginlegu evrópsku landamærastofnuninni ef við værum ekki í Schengen. Bretar hafa reynt að komast inn í sameiginlegu landamærastofnunina en þeim hefur verið hafnað af Evrópudómstólnum af því að þeir eru ekki í Schengen þannig að allt tal um að við séum verr settir að þessu leyti en Bretar og Írar er algerlega rangt.

Verið er að fjalla um á vettvangi dómsmálaráðuneytisins hvort við getum flutt fanga úr landi og látið þá afplána í sínum heimalöndum. Niðurstaða er ekki fengin en ég tel að það sé unnt og þurfi ekki að gera sérstaka samninga. Það er bókun við samning sem gerður var á vegum Evrópuráðsins um þessi mál sem vísað hefur verið til af öðrum þjóðum og ég tel að við getum gert líka en ég vil ekki segja meira um það fyrr en málið er komið í höfn.