135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:29]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að vita það. Ég veit þá að hæstv. dómsmálaráðherra gefur ekkert fyrir vandaða frumvarpssmíð, eða þannig má skilja orð hans, ef handbókin er ekki verklagsreglur sem fara á eftir.

Ég spyr öðru sinni: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér til að koma til móts við konur sem sitja í gíslingu ofbeldis þegar þær hafa ekki náð þriggja ára dvalartíma hér á landi? Ég spyr enn fremur, af því að ég skildi hæstv. ráðherra þannig að hann hygðist setja ákvæði í reglugerð um að tryggja að styrkur frá foreldrum væri sama og framfærsla fyrir þá sem eru 18 ára og eldri. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann koma því fyrir í reglugerð? Ég ítreka að ég tel eðlilegt að það og fjöldamargt annað sé í lögum en ekki reglugerðarheimild.