135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra að ég hafi misskilið ákvæði laganna og frumvarpsins. Svo er alls ekki, mér var fyllilega ljóst að þetta átti við um þá sem eru utan EES-svæðisins. Það er hins vegar rétt, sem ég bendi á, að verið er að setja inn í lagatexta ákvæði sem ekki hafa verið þar, þetta er nýmæli í lagasetningu og þeir sem bera þá tillögu fram hljóta að fallast á að þetta eigi að verða að lögum.

Sú regla að það sé undanþága fyrst fyrir Norðurlandaþjóðir og síðar fyrir EES-þjóðir byggist á því að menn telja heilbrigðiskerfið það öflugt í þessum löndum að einstaklingar sem koma þaðan hafi að baki viðlíka athugun og eftirlit og gerist hjá okkur. Það er því miður brestur á þessu í sumum löndum gömlu Austur-Evrópu og þess vegna hafa þessar raddir komið upp sem ég gat um að hefði gerst fyrir ári síðan varðandi berklasmit.