135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

44. mál
[16:34]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þyrlubjörgunarsveit á Akureyri sem hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Valgerður Sverrisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Þuríður Backman, Ólöf Nordal og Höskuldur Þórhallsson flytja ásamt þeim sem hér stendur.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja að Landhelgisgæsla Íslands haldi úti björgunarþyrlu frá Akureyri.“

Í greinargerð með ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Á íslenskum fiskimiðum eru veður válynd og þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar er mikilvæg fyrir öryggi sjófarenda. Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru á Norður- og Austurlandi og mikil útgerð er á svæðinu. Þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar er þó einungis staðsett á suðvesturhorni landsins og því búa sjófarendur um norðan- og austanvert landið við minna öryggi en aðrir vegna þess hve fjarlæg þyrlubjörgunarsveitin er. Þó að tillaga þessi sé flutt af hópi þingmanna Norðausturkjördæmis ber alls ekki að líta svo á að hún snúist um byggða- eða atvinnumál, heldur er hér fyrst og fremst um öryggismál að ræða sem brýnt er að leyst verði úr hið fyrsta.

Margt bendir til að skipaumferð á norðurslóðum aukist til muna á komandi árum í tengslum við minnkandi hafís á siglingaleiðinni um Norður-Íshafsleiðina. Einnig má benda á að miðstöð sjúkraflugs á Íslandi er á Akureyri auk þess sem Sjúkraflutningaskóli Íslands er á Akureyri. Faglega séð ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að byggja upp þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

Jafnframt má nefna að þyrlur Landhelgisgæslunnar gegna sívaxandi hlutverki við björgun á landi, t.d. þegar flytja þarf slasað fólk, m.a. frá hálendinu til byggða og undir læknishendur.“

Það er, hæstv. forseti, engin nýlunda að þingmenn og aðrir ræði um staðsetningu þyrlubjörgunarsveitar á landsbyggðinni. Staðreyndin er sú, eins og bent er á í greinargerðinni, að viðbragðstími þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar er mjög mismunandi í ljósi þess að hún er staðsett á einum stað á suðvesturhorni landsins og því er það spurning um hvar til að mynda erfiðleikar steðja að skipum hver viðbragðstími þyrlunnar er. Sveitarstjórnarmenn, þingmenn og aðilar tengdir fiskvinnslu og fiskveiðum hafa bent á að öryggisins vegna væri mjög brýnt að staðsetja þyrlur Landhelgisgæslunnar á fleiri en einum stað á landinu.

Eyþing, Samband sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, hélt aðalfund sinn dagana 5.–6. október sl. Þar var ályktað sérstaklega um staðsetningu þyrlubjörgunarsveitar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Eyþings, haldinn á Raufarhöfn 5. og 6. október 2007, ítrekar það mikilvæga öryggisatriði að þyrlubjörgunarsveit sé staðsett á Akureyri. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir norðan- og austanvert landið og hafsvæðið út af því enda um stórt svæði að ræða og getur nálægð við þyrlubjörgunarsveit skipt miklu máli á ögurstund.“

Svo segir í ályktun sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Það má geta þess að undirstöðuatvinnugrein þeirra byggðarlaga og þeirra sveitarfélaga sem eru á Norðurlandi eystra, rétt eins og á Austurlandi, byggist á því sem sjórinn gefur þannig að um mikilvægt hagsmunamál er að ræða fyrir þessi sveitarfélög. Þessi ályktun, sem var samþykkt hjá þessum sveitarfélögum, lýsir því náttúrlega hversu víðtæks stuðnings þetta mál nýtur, sérstaklega í þeim byggðarlögum sem reiða sig á fiskveiðar sjómanna sem þurfa að sækja sjóinn frá þessum byggðarlögum.

Hæstv. forseti. Á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna í október sl. var samþykkt ályktun þar sem því var fagnað hversu mjög þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslu Íslands hefur vaxið fiskur um hrygg og hversu öflug sveitin væri orðin.

Í ályktun fundarins sagði einnig, með leyfi forseta:

„Fundurinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að staðsetja þyrlu úti á landi sem mun þannig staðsett auka enn frekar á öryggi og margfalda þjónustugetu sveitarinnar.“

Forsvarsmenn LÍÚ hafa einnig bent á að töluverð umferð skipa er um hafsvæðið fyrir norðan- og norðaustanvert landið og þannig sé mikilvægt að viðbragðstími sé sem stystur ef óhöpp verða. Því orða forsvarsmenn Landssambands íslenskra útvegsmanna það þannig að nauðsynlegt sé að björgunarþyrlur séu ekki einungis staðsettar á suðvesturhorni landsins. Sá tímasparnaður sem næst með því að staðsetja þyrlu, t.d. á Akureyri, gæti skipt sköpum ef óhöpp verða á þessu hafsvæði en vegalengdin á milli Reykjavíkur og Akureyrar í beinni loftlínu er um 135 sjómílur og við bætast 30–40 mílur ef fljúga þarf með ströndinni. Þetta segja forsvarsmenn Landssambands íslenskra útvegsmanna í rökstuðningi sínum og bæta því við að í dag þurfi TF Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar, að stoppa og taka eldsneyti á Akureyri ef hún flýgur frá Reykjavík og norður fyrir land þar sem flugþol hennar er takmarkað við 625 sjómílur. Ef þyrlan væri hins vegar staðsett á Akureyri hefði hún flugþol upp á 300 sjómílur hvora leið en að auki sparast tími sem er afar mikilvægt fyrir þann sem í nauðum er staddur og þarf aðstoð.

Á formannsfundi Sjómannasambands Íslands, sem var haldinn á Akureyri 26. og 27. október sl., er enn ályktað í sömu átt, með leyfi hæstv. forseta:

„Formannafundur Sjómannasambands Íslands, haldinn á Akureyri 26. og 27. október 2007, skorar á Alþingi að taka þá ákvörðun að björgunarþyrlusveit hafi aðsetur á Akureyrarflugvelli. Fundurinn bendir á það mikilvæga öryggisatriði að þyrlubjörgunarsveit verði staðsett þar um leið og starfsemi Fjórðungssjúkrahússins verði efld. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir norðan- og austanvert landið og hafsvæðið út frá því, enda um stórt svæði að ræða og getur nálægð við björgunarþyrlusveit skipt miklu máli á ögurstund.“

Hæstv. forseti. Hvers vegna les ég hér upp ályktanir frá helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og þeim sveitarfélögum sem þetta málefni snertir svo mikið? Það geri ég til þess að sýna fram á hversu víðtæk samstaða er um það að þyrla Landhelgisgæslu Íslands verði staðsett á fleiri en einum stað á landinu í ljósi þeirra gríðarlegu öryggissjónarmiða sem þar eru uppi. Við þingmenn höfum einnig heyrt það frá bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar, sem hefur bókað þann vilja sinn að þyrlubjörgunarsveit verði staðsett á Akureyri. Þar hafa kjörnir fulltrúar, sama hvar í flokki þeir hafa staðið, lýst yfir þeim einbeitta vilja sínum að staðsetja þyrlubjörgunarsveitina þar.

Ég fann, hæstv. forseti, og trúlega fleiri þingmenn, sem frambjóðandi í Norðausturkjördæmi, að það er vaxandi þrýstingur hjá íbúum á þessu svæði á það að þyrlubjörgunarsveit verði á Akureyri. Það kom mér á óvart á ferð minni, einni af mörgum ferðum um Austurland, að mikill þrýstingur var á Austurlandi á það að þyrlubjörgunarsveit verði á Akureyri. Að sjálfsögðu áttar fólk sig á því, aðstandendur sjómanna og þeir sem búa í þessum samfélögum, um hve gríðarlega mikið öryggismál er að ræða. Ég álít að mjög víðtækur stuðningur sé á Austurlandi og á öllu Norðurlandi við það að ráðist verði í þessar breytingar. Það er jú staðreynd, eins og áður hefur verið nefnt, að sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein á Norðurlandi og Austurlandi. Það er sérstakt réttlætismál í mínum huga að þeir menn sem sækja sjóinn úti fyrir Norður- og Austurlandi njóti sama öryggis við að sækja atvinnu sína og þeir sem stunda sjómennsku á suðvesturhorni landsins.

Ég vil leggja áherslu á að hér er ekki um að ræða pólitískt mál, þetta er málefni sem er hafið yfir pólitísk deiluefni á milli stjórnmálaflokka enda gefur fjöldi þingmanna á þessu ágæta þingmáli það til kynna. Trúlega hefði verið hægt að fá mun fleiri þingmenn á þetta mikilvæga mál enda er það hafið yfir flokkspólitík eins og ég sagði.

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram sem stendur í greinargerð með frumvarpinu að ég lít ekki á þetta mál sem atvinnumál fyrir Akureyri. Þó að staðsetning þyrlubjörgunarsveitar eða þyrlu á Akureyri mundi skapa einhver störf á Akureyri lít ég fyrst og fremst á þetta sem hreint og klárt öryggismál fyrir sjófarendur úti fyrir Norður- og Austurlandi, eins og ég hef komið hér inn á. Það liggur fyrir mikill þrýstingur úr samfélögum á Norður- og Austurlandi, frá sveitarfélögum á þessu svæði, frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi á að Alþingi beiti sér fyrir því að björgunarþyrla verði staðsett á landsbyggðinni og margar þær ályktanir hníga að því að sú þyrla eigi að vera á Akureyri.

Það er því mikilvægt í þessari umræðu hér að fá að heyra hver hugur hæstv. dómsmálaráðherra er í málinu. Hann gegnir mikilvægu hlutverki sem ráðherra málaflokksins þó að vissulega sé það þannig að sjúkraflug og björgunarflug ætti að einhverju leyti að heyra undir ráðherra heilbrigðismála. Eins og staðan er nú gegnir Landhelgisgæslan því hlutverki að sinna þessu sjúkraflugi einnig og hefur gert af stakri prýði. Ég efa ekki að hún gæti enn betur sinnt hlutverki sínu væru þyrlubjörgunarsveitir staðsettar á tveimur stöðum á landinu, á suðvesturhorni landsins og á Akureyri.

Ég geri mér grein fyrir því að verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt hér á þingi mun það þýða ákveðinn útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, við verðum að gera okkur grein fyrir því. En um er að ræða gríðarlega mikið öryggismál og réttlætismál að mínu mati, m.a. fyrir sjómenn. Ef við horfum á það að í framtíðinni mun siglingaleiðin norður fyrir land opnast með gríðarlega miklum skipaflutningum þar um er bara tímaspursmál hvenær við sjáum það fyrir okkur að þyrlubjörgunarsveit verði staðsett þar nyrðra.

Ég ætla því ekki að hafa mál mitt miklu lengra. Ég legg áherslu á að þingmenn allra flokka geta trúlega fylkt sér á bak við það að þyrla Landhelgisgæslunnar sé staðsett á fleiri en einum stað á landinu í ljósi þeirra miklu öryggishagsmuna sem snerta undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sem snerta sjómenn þessa lands, byggðarlög þeirra og aðstandendur. Óháð flokkum eigum við að reyna að sammælast um að samþykkja þessa þingsályktun hér frá Alþingi. Ég legg mikið upp úr því að við vinnum hratt að þessum málum hér á vettvangi þingsins og reynum að koma þingsályktunartillögunni í gegnum Alþingi og að hún verði samþykkt hér á vorþingi.