135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

44. mál
[16:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar um þyrlubjörgunarsveit á Akureyri er flutt af okkur níu þingmönnum úr Norðausturkjördæmi. Hugsanlega var það athugunarleysi að leita ekki víðar, því að ég heyrði það og fann þegar tillagan var lögð fram að miklu fleiri þingmenn úr öðrum kjördæmum hefðu gjarnan viljað vera með á þingsályktunartillögunni. Raunar er hún hafin yfir allt sem við getum kallað kjördæmapot. Ef við horfum á landið í heild er þetta eingöngu þingsályktunartillaga til að færa okkur nær nútímanum með nútímalegri þjónustu við slasaða eða fársjúka og færa þann þátt sem best er sinnt með þyrlum á þann flugvöll sem í dag er best útbúinn til sjúkraflutninga utan höfuðborgarsvæðisins, þ.e. Akureyrarflugvöllur. Þar er í dag sérútbúin sjúkraflugvél sem þjónað er frá Akureyrarflugvelli og sinna læknar Sjúkrahússins á Akureyri bráðaútköllum með þeirri flugvél. Við þessar aðstæður er eðlilegt að taka næsta skref og bæta þyrlu við þann öryggisbúnað sem er nú þegar fyrir á Akureyrarflugvelli.

Ekki er langt síðan lítil farþegaflugvél var staðsett á Akureyrarflugvelli til að sinna norðausturhluta landsins. Sú flugvél var í almennum farþegaflutningum og í hvert skipti sem útkall barst þurfti að byrja á því að taka sætin úr vélinni til að útbúa hana fyrir sjúkraflutninga. Þetta var bæði tafsamt og vélin var óhentug. Mörgum þótti vel í lagt að láta þetta ekki duga, það væri dálítið dýrt að hafa sérútbúna sjúkraflugvél sem væri eingöngu í sjúkraflutningum. Í dag heyrast þessar raddir ekki, þetta þykir jafnsjálfsagt og að vera með sjúkrabíl á staðnum. Við gerum að sjálfsögðu þær kröfur að slík þjónusta við sjúka og slasaða fylgi þeirri þróun sem er í nágrannalöndum okkar og að fólki hér á landi verði búin sú þjónusta eins og best verður gert.

Hvað varðar þessar tvær tegundir flugvéla til sjúkraflutninga þá er ekki hægt að nota sjúkraflutningavél eins og nú er staðsett á Akureyri og þjónar öllu landinu nema fyrir hendi sé flugvöllur til að lenda á. Í annan stað er hægt að nota þyrlur sem geta lent utan flugvalla en þær eru þeim takmörkunum háðar að bæði er flugþol eða fluggeta miklu minni en hjá venjulegum skrúfuflugvélum og auk þess þola þær illa veður ef það er misvinda og þegar slys verða, sem oft verða í óveðri eða slæmu veðri, geta þyrlurnar ekki flogið þvert yfir landið eða stystu leið heldur verða í flestum tilfellum að fljúga meðfram ströndinni sem lengir flugtímann og veldur því, eins og kom fram frá 1. flutningsmanni þessarar tillögu, að þyrlurnar þurfa að tanka á Akureyri ef slys eða óhapp verður á sjó norðaustur af landinu. Það er því ákveðinn radíus frá upphafspunkti eða þaðan sem þyrlan tekur sig á loft sem hún getur þjónað og þessi flugradíus er þar að auki takmarkaður vegna hálendisins. Þannig að þótt við séum með kröftugar og góðar þyrlur og frábært starfsfólk þá er þyrlan staðsett á suðvesturhorninu og hefur takmarkaða þjónustugetu af þeim sökum. Vegna þessa og ekki eingöngu vegna sjómanna heldur til að geta þjónað öllu landinu tel ég það aðeins tímaspursmál hvenær þyrlubjörgunarsveit verður sett niður á Akureyri, bæði vegna staðsetningar og vegna sjúkrahússins og þeirrar þjónustu sem læknar sjúkrahússins veita og þeirrar þjónustu sem hægt er að fá á flugvellinum. Þetta á einnig við um þá sem slasast og verða sjúkir og þurfa á bráðaþjónustu að halda á því svæði sem þyrlan getur sinnt út frá þessum radíus, út frá Akureyri.

Þetta mun auðvitað kosta mikla fjármuni, ég veit ekki hve mikla, ég hef ekki tölur um hvað þetta yrði á ársgrundvelli í rekstri, en ég tel að það sé afar brýnt hagsmunamál, ekki aðeins fyrir Austfirðinga og þá sem búa á norðausturhorni landsins heldur alla sem ferðast um þetta svæði, á hálendinu og á sjó, að hafa þyrlubjörgunarsveit staðsetta á Akureyri. Mjög margir hafa ályktað um þetta mál eins og hér var talið upp, öll sveitarfélögin í kjördæminu ásamt Akureyri, einnig hafa LÍÚ og formannafundur Sjómannasambands Íslands ályktað um það ásamt fleirum. Ég veit að íbúum þessa svæðis er mjög umhugað um að þessi þjónusta komist á hið fyrsta, að ég tali ekki um þá sem sinna heilbrigðisþjónustu og eiga að bera ábyrgð á henni en þeir aðilar sem þekkja hvað best til telja þetta eitt mesta hagsmunamálið í heilbrigðis- og öryggisþjónustu á svæðinu. Ég tek undir það og tel að við næðum langt ef við afgreiddum þessa þingsályktunartillögu á vorþinginu og færum svo í framhaldinu í þá vinnu að undirbúa það að fá þyrlu og koma upp þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.