135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

44. mál
[16:55]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur átt sér stað gríðarlega mikil styrking á Landhelgisgæslu Íslands, bæði á flugflotanum og fyrirhuguð er mikil styrking á skipaflotanum. Þetta er fagnaðarefni. Núna er Landhelgisgæslan með fjórar mjög öflugar þyrlur í þjónustu sinni. Ekki eru mörg ár síðan við treystum algerlega á varnarliðið meðan það var með þann þyrlukost sem það hafði en eftir að brottför þess var ákveðin varð nauðsynlegt fyrir okkur að efla flota okkar.

Minnisstætt er og gott að rifja það upp þegar TF Sif, þáverandi björgunarþyrla, kom hingað til lands og hvílík bylting okkur þótti að fá þá nýju öflugu vél. Í dag þykir slík vél einungis nothæf í sjúkraflug við bestu aðstæður en við notum miklu öflugri tæki við öll björgunarstörf í alvarlegri kantinum.

Samhliða þessu hefur orðið mikil efling í öllum björgunarsveitum okkar og ég vil nefna í því sambandi að við höfum styrkt mjög björgunarskipaflota í kringum landið þar sem Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur núna 14 stór björgunarskip staðsett hringinn í kringum landið. Þessi skip æfa reglulega með áhöfnum þyrlna Gæslunnar og áhöfnum varðskipa, þannig að þau skip sem staðsett eru úti um land og fyrir norðan njóta miklu sjaldnar í aðgerðum og útköllum þeirrar aðstoðar og samvinnu sem er mjög mikilvæg við þyrlur á hættustundu.

Þyrlur eru eitthvert öflugasta hjálpartæki björgunarfólks en þyrlan sjálf gerir ekkert án þess að hafa öflugt fólk til að starfa með og fólk sem starfar í henni. Við búum að frábærum starfsmönnum hjá Landhelgisgæslu Íslands, mönnum með mikla reynslu, og verið er að þjálfa upp nýtt fólk út af þeirri miklu fjölgun sem orðið hefur á þyrlunum. Þetta fólk er að koma inn núna sem fullgildir flugmenn og flugliðar í áhafnirnar. Oft og tíðum hefur þetta starfsfólk unnið þrekvirki við mjög erfiðar aðstæður ásamt öðru björgunarliði.

Það er ekki aðeins á hafinu sem þyrlurnar nýtast okkur við björgunarstörf, þær nýtast líka á landi og með allri þeirri aukningu sem er í ferðamennsku, í fjölgun ferðafólks sem hingað kemur og ferðast um hálendið bæði að sumar- og vetrarlagi, geta þyrlurnar skipt mjög miklu máli, t.d. við flutning á björgunarliði og til að sinna sjúkraflugi á þá staði þar sem almennar sjúkraflugvélar geta ekki athafnað sig. Þyrlurnar gegna líka mikilvægu hlutverki t.d. við að flytja slökkvilið út á sjó, björgunarmenn á leið í leitir og skemmst er að minnast t.d. mjög stórrar leitar að þýskum ferðamönnum á Öræfajökli seinni partinn í sumar eða haust, gríðarlega umfangsmikillar leitar þar sem þyrlur spöruðu björgunarfólki ofboðslega mikla vinnu. Það ber einnig að hafa í huga að við náum miklu meiri nýtingu og miklu meiri krafti úr öllu björgunarstarfi þegar slík öflug hjálpartæki eru til staðar.

Tíminn er oft mjög mikilvægur þegar um er að ræða slys, leit og björgun. Við getum séð fyrir okkur alvarlegt slys sem verður úti á sjó eða inni á hálendinu eins og aðstæðurnar eru í dag. Dagsbirtu nýtur í örfáar stundir og stundum verða menn að hafa dagsbirtu til að geta unnið og þá skiptir tíminn afar miklu máli til að geta nýtt það lið sem við sendum á vettvang. Við höfum líka búið við þær aðstæður að flugleiðir innan lands geta verið nánast lokaðar á milli landshluta jafnvel fyrir svona öflug tæki. Við höfum mörg dæmi um það. Við höfum líka dæmi um það þegar byggðarlög verða fyrir stærri áföllum og ég vil nefna t.d. snjóflóðin fyrir vestan á sínum tíma. Þar gegndu þyrlur mikilvægu hlutverki við að flytja björgunarfólk á staðinn og við getum öll séð hvílíkur munur það væri að geta komið að slíkum vettvangi frá tveimur stöðum vegna þess að aðstæður á leiðinni geta verið mismunandi og því getur þetta skipt sköpum þegar um alvarleg áföll er að ræða.

Í framhaldi af allri þessari styrkingu og þeirri aukningu sem staðið hefur verið myndarlega að á undanförnum missirum og áformum sem eru í pípunum þá er mjög eðlilegt að horfa til þess framhalds að svona björgunartæki verði staðsett úti á landi. Það er í rauninni eðlileg krafa, ekki aðeins sjómanna, það er auðvitað sjálfsögð krafa sjómanna en það er líka sjálfsögð krafa þeirra sem þar búa og þeirra sem ferðast um þessi svæði.

Akureyri er út af fyrir sig mjög góð staðsetning. Ég ætla ekki að fella endilega dóm um hvaða staðsetning er best í þessu tilliti úti á landi en Akureyri er fljótt á litið klárlega mjög góð staðsetning. Akureyri er náttúrlega miðsvæðis á Norðurlandi, þar er miðstöð sjúkraflugs og ég vil taka það fram í umræðunni um þátt þyrlna í sjúkraflugi að auðvitað kemur þyrlan ekki í stað sjúkraflugvéla í almennu sjúkraflugi. Sjúkraflugvélar eru miklu heppilegri, þær eru miklu hraðfleygari en um leið og aðstæður eru erfiðari og um er að ræða svæði þar sem flugvélar geta ekki athafnað sig þá er þyrlan auðvitað það sterka tæki sem við höfum. Akureyri er sem sagt miðsvæðis, þar er mjög öflugt og reynt björgunarlið, lið sem er vant að vinna bæði með þyrlum og í sjúkraflugi og er vant að bregðast við. Þar eru slökkviliðsmenn sem eru vanir að vinna við þessar aðstæður, þar eru læknar og sjúkraflutningamenn sem fara mjög reglulega í sjúkraflug. Það eru mjög öflugar björgunarsveitir bæði á Akureyri og í nágrenninu, björgunarsveitir með mjög víðtæka þekkingu. Það er mjög margt sem mælir með Akureyri sem staðsetningu þegar til þessa verður litið.

Virðulegi forseti. Við þessar aðstæður tel ég mjög eðlilegt að við lítum til þess í náinni framtíð jafnvel að fara með svo öflugt björgunartæki út á land. Það er eðlileg krafa og það er í raun skylda okkar sem leggjum reglurnar í þessum málum að líta til þess að mannslíf eru jafnverðmæt hvar sem er á landinu og okkur ber skylda til að bregðast við með eins öflugum hætti og við getum til að sinna þeim útköllum og þeirri hjálp sem fólk þarf á að halda hvar sem er á landinu.