135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

44. mál
[17:20]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hæstv. dómsmálaráðherra þau svör sem hann gefur og þær undirtektir sem hann sýnir málflutningi flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu um það að setja niður eitt af björgunartækjum Landhelgisgæslunnar, þyrlusveitarinnar, á Akureyri. Ég vil ítreka það hér, og þess vegna hef ég komið upp til andsvars, að hugmyndir manna sem standa að þessari þingsályktunartillögu ganga ekki út á að brjóta upp kerfið sem hefur verið sett upp og byggt upp undir öruggri forustu hæstv. ráðherra, kerfið sem gildir um Landhelgisgæsluna. Hugsunin í þessari tillögu er alls ekki sú heldur þvert á móti að knýja á um það að þeim kröftum sem við höfum verið að byggja upp í björgunarmálum landsins verði dreift víðar eða höfð betri not af þeim víðar um land. Ég get fullyrt það í ljósi þess sem hæstv. ráðherra nefndi hér varðandi hugmyndir manna um nýtingu hugsanlegra olíulinda á svokölluðu Drekasvæði, þá er, samkvæmt þeirri álitsgerð sem ég nefndi í ræðu minni, gert ráð fyrir að flugdrægni Super Puma-þyrlunnar frá Akureyri nái norðaustur undir svokallað Drekasvæði sem mun vera einhvers staðar um 340 kílómetra norðaustur af landinu. Að öllu samanlögðu kýs ég að álykta sem svo að hugmyndir okkar flutningsmanna og ráðherra fari saman í þessu efni.