135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[17:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að fá staðfestingu á því frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að tilgangurinn með frumvarpinu sé sá að banna auglýsingar á áfengi eða styrkja og styðja bannákvæði áfengislaga eins og þau eru nú. Þetta er sjónarmið sem ég virði og það kemur mér svo sem ekki á óvart að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að það eigi að gera en ég hygg að það hafi komið fram í ræðu minni að ég er ekki hlynntur því sjónarmiði, m.a. af þeim ástæðum sem ég tilgreindi í ræðu minni. Áfengi er lögleg vara og af þeirri ástæðu tel ég að heimila eigi auglýsingar á því upp að því marki sem skynsamlegt er en ekki banna þær alfarið.

Ég er hreinskilinn með það að ég tel að liðka eigi til hvað varðar þessar reglur. Ég á eftir að sjá að sú þróun sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsir varðandi það sem gerast mun í erlendum ríkjum muni eiga sér stað. Ég hef ekki trú á því að erlend þjóðþing muni stíga þau skref að breyta löggjöf sinni með þeim hætti að auglýsingar á áfengi verði bannaðar. Ég held þvert á móti að erlendi löggjafinn sé frekar sammála þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið varðandi þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að það sé ekki galli á þessu frumvarpi að verði það að lögum sé innlendum fjölmiðlum bannað að birta slíkar auglýsingar en erlendum ekki?