135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[18:08]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil mætavel að hv. flutningsmenn þessa frumvarps vilji með framlagningu þess skýra þá löggjöf sem nú er í gildi og séu þeirrar skoðunar gera þurfi breytingar á ákvæðinu til að það nái markmiði sínu. Ég get upplýst hv. þingmann um það að ég hef líklega þrisvar sinnum lagt fram frumvarp sem mælir fyrir um tilslakanir í þessu efni og það má vel vera að ég endurflytji það frumvarp á þessu kjörtímabili.

Það sem ég var að reyna að benda á í fyrra andsvari mínu var að ég hef ekki sömu trú á því að boð og bönn séu heppilegust til að leysa þau vandamál sem uppi eru hverju sinni eins og ofneysla áfengis er, þrátt fyrir að ég geri mér grein fyrir að ofneysla áfengis geti haft skaðleg áhrif. Ég tel að við eigum að leysa þau vandamál með öðrum meðulum, eins og í gegnum heilbrigðiskerfið eða félagslega kerfið, í stað þess að beita bannákvæðum í lögum. Ég held að með því að beita slíkum úrræðum séu menn að skapa sér skálkaskjól til þess að komast hjá því að takast á við þann vanda sem fyrir er. Ég get ekki séð að með því að banna auglýsingar á þessum vörum séu menn að gæta meðalhófs, síður en svo, menn eru að ganga býsna langt, og ég minni á það sem ég nefndi áðan að við búum í frjálsu landi, við eigum að treysta fullorðnu fólki til að haga lífi sínu eins og það vill gera. (Forseti hringir.) Einstaklingurinn er heppilegastur til þess og heppilegri en þeir 63 ágætu hv. þingmenn sem hér sitja.