135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[18:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum sem er sérstaklega beint að 20. gr. áfengislaga sem fjallar um auglýsingar og bann við auglýsingum. Ég er sammála flutningsmönnum þessa frumvarps að það er afskaplega slæmt þegar lög eru brotin og farið fram hjá þeim með ýmsum hætti. Hins vegar er ég undrandi á því hvernig menn hyggjast leysa það.

Í greinargerð með frumvarpinu er hugtakið „auglýsing“ skilgreint en í rauninni ekki á réttan hátt. Í mínum huga er auglýsing fyrst og fremst fræðsla og upplýsing. Það er verið að upplýsa um að ákveðin vara sé til og hún hafi þennan og hinn eiginleikann og sé til á þessum og hinum staðnum. Auk þess fellur hún undir tjáningarfrelsi, leyfi til að segja frá skoðunum sínum. En hún er jafnframt áróður, hvatning, heilaþvottur og ítroðsla. Það er nú gallinn við auglýsingarnar.

Það frumvarp sem hér um ræðir fjallar um 20. gr. sem er bann við auglýsingum og þar er greinilega um forsjárhyggju að ræða. Það er verið að stýra fullorðnu fólki, það á ekki að fá að vita um ýmsa þætti, það á ekki að fá þessa fræðslu og þessa upplýsingu vegna þess að það kynni að verða fyrir áhrifum af ítroðslunni. Ég er á móti því yfirleitt og mér finnst að flutningsmenn frumvarpsins hefðu átt að skoða hvort ekki séu til aðrar leiðir, eins og t.d. að minnka auglýsingabannið og takmarka það við ákveðinn hóp, t.d. börn og unglinga. Þar finnst mér í lagi að hafa forsjárhyggju, mér finnst í lagi að hafa forsjá fyrir unglingum og börnum en ég er á móti því að hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Auk þess hefur komið í ljós að þetta auglýsingabann heldur ekki og það er afskaplega skekkjandi í samkeppninni. Bann á auglýsingum þýðir greinilega að það verður minni samkeppni.

Netið og sýningar frá fótboltavöllum sýna okkur fram á að auglýsingabannið heldur ekki. Þegar Íslendingar keppa einhvers staðar úti í heimi er hægt að auglýsa íslenskar áfengisvörur og þegar fyrirspurn kemur frá Íslendingi inn á alþjóðlegar heimasíður er hægt að greina að hann er Íslendingur ef netfangið endar á is og þá er hægt að dæla á hann upplýsingum um íslenskar áfengisauglýsingar einhvers staðar úti í heimi. Bann er mjög erfitt í framkvæmd.

Auglýsingabann viðheldur þeirri dulúð sem hefur verið sveipuð um áfengi á Íslandi, þetta er ekki venjuleg vara, þetta er einhver helgidómur, eins og ég hef margoft nefnt, og menn umgangast hana sem slíka, menn umgangast hana og tilbiðja hana eins og helgidóm. Þetta er ósköp venjuleg vara og ég vil afhjúpa þennan helgidóm af þessari vöru.

Svo vil ég benda á að ef við blöndum einfaldan viskí í kók, og ég hef fengið upplýsingar um að einn sjússamælir er 3 sentilítrar, og setjum það út í glas af kók sem eru 100 sentilítrar þá mælist það 3%. Ef viskíið í kókinu er 40% þá er áfengismagnið í þessum drykk 1,2%. Þess vegna ætti það ekki að falla undir það að flokkast sem áfengi nema að í lögunum er mjög merkilegt ákvæði sem er erfitt að skilja og þar stendur:

„Efni þau sem sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika skal fara með sem áfengan drykk.“

Það þýðir að þó að áfengismagnið sé 1,2% í þessu glasi, einfaldur viskí í kók, þá á vegna þessa ákvæðis að fjalla um það sem áfengan drykk. Ef framleiðendum viskís tækist að framleiða drykk með 1,2% áfengismagni sem er viskí í kók þá væri þetta í lagi. Þetta sýnir bara vandkvæðin sem felast í þessu áfengisbanni og aðgreiningu þess.

Ég hefði viljað að hv. þingmenn sem flytja þetta frumvarp hefðu litið til þess að minnka takmarkanirnar og reyna að vinna gegn göllum þess banns sem er í gildi í dag. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að menn ættu gjarnan að skoða hvort ekki ætti að breyta þessu banni.