135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[18:17]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef hlýtt á umræður um málið og geri mér grein fyrir því, ég hef oft verið spurður um það hér í þinginu hvort yfirleitt sé framkvæmanlegt að fylgja eftir þeim lögum sem gilda um áfengisauglýsingar eða bann við þeim hér á landi. Menn hafa gert það í tilefni af því að á það hefur þótt skorta að ákæruvaldið sækti menn til saka. Einstökum þingmönnum þykir ástæða til þess vegna þess sem þeir hafa séð í auglýsingum og telja að við því hafi ekki verið brugðist með nægilega harkalegum hætti af hálfu ákæruvaldsins miðað við þau ákvæði sem eru í lögum.

Ég er ekki með yfirlit hér hjá mér yfir þá dóma sem nýlega hafa fallið í þessu efni en ef ég man rétt hefur ákæruvaldið farið inn á nýjar brautir við ákærur og fengið niðurstöður hjá dómstólum sem hafa sýnt að þau lög sem við höfum gildandi um þetta virka að sjálfsögðu. Dómarar fallast á að auglýsingar, sem hafa birst í blöðum og fjölmiðlum brjóti í bága við lögin. Ég er alveg sammála 1. flutningsmanni þessa frumvarps, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að okkur vantar skýrari reglur um þetta og það þótti mér kjarninn í máli hans að taka þyrfti betur af skarið um málið í íslenskri löggjöf. Hann flytur frumvarp ásamt öðrum þingmönnum um að loka því sem hann telur vera glufu í lögunum, loka því sem hann telur að leiði til þess að menn reyni að firra sig ábyrgð ef einhverjar auglýsingar birtast þar sem í raun er verið að auglýsa áfengi, þótt með smáu letri sé.

Gott og vel. Hér hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson komið og vakið máls á frumvarpi sínu sem hann hefur því miður ekki flutt á þessu þingi og ég harma að það liggi ekki fyrir sem þingskjal heldur sem fræðsluefni í umræðunum. Þar vekur hann máls á því að fallið hafi dómar eða úrskurðir hjá EFTA-dómstólnum, einnig hjá Evrópudómstólnum og í Svíþjóð sem sýna fram á að afdráttarlaus regla um bann við auglýsingum á áfengi brjóti í bága við meginreglur um frjálst flæði og frjáls viðskipti þannig að ég spyr mig: Hefur Eftirlitsstofnun EFTA komið að þessu máli með athugasemdum til íslenskra stjórnvalda um málið? Ef það frumvarp sem ágætur hv. þm. Ögmundur Jónasson flytur hér, yrði samþykkt, mundi þá ekki koma athugasemd til hans frá Eftirlitsstofnun EFTA sem fyndi að því að slíkt sé fært í lög? Ef slík athugasemd hefur ekki komið, lítur þá Eftirlitsstofnunin þannig á málið nú að í íslenskri löggjöf séu glufur sem gera okkur kleift að skorast undan því að sæta eftirliti frá stofnuninni vegna þessara lagaákvæða?

Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði hver afstaða mín væri. Þegar ég lít á þessi tvö frumvörp þá styð ég frekar frumvarp hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég tel að það sé skynsamleg leið og það sé leið sem eigi að fara til að tryggja það meðalhóf og þær reglur sem staðist geta kröfur sem gerðar eru til okkar sem þátttakenda í evrópska efnahagssamstarfinu. Ég harma að frumvarpið skuli ekki liggja fyrir sem þingskjal sem menn geta tekið afstöðu til. Ég hef lýst þeirri skoðun þegar þetta mál hefur verið til umræðu að ég tel að brýnna sé að taka á því og komast að niðurstöðu um það á þinginu en hvort selja eigi áfengi í almennum verslunum. Ég tel að það eigi að hafa forgang að ganga frá reglum um auglýsingamálin áður en þingið afgreiðir hvort það ætli að heimila sölu á bjór og léttu víni í almennum verslunum. Mikill þrýstingur mundi myndast ef það skref yrði stigið á þinginu, þrýstingur varðandi auglýsingarnar og annað slíkt. Það þyrfti að setja það með klárari hætti heldur en nú er og gera það þannig úr garði að við séum viss um að það standist kröfur samkvæmt Evrópuréttinum. Fyrst ég var spurður þá tel ég að það sé forgangsmál í áfengismálum sem rædd eru í þinginu að breyta þessari löggjöf og síðan að velta því upp hvort selja eigi áfengi á fleiri stöðum en í einkaverslunum ríkisins.