135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[18:23]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og fyrir viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra. Afstaða hans er skýr. Hann hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að það sem vaki fyrir okkur, talsmönnum þessa frumvarps, sé að stoppa upp í þá löggjöf sem nú er við lýði. Hún er mjög skýr. Þar er skýrt kveðið á um það markmið íslenskra laga að bann skuli gilda við áfengisauglýsingum. Það er skýrt og afdráttarlaust. Farið er á bak við það lagaákvæði og við viljum koma í veg fyrir það með þessari breytingu og styðjumst þar við fordæmi frá Noregi.

Síðan hefur spunnist önnur umræða, þ.e. hvort við eigum að breyta lögum hvað þetta snertir. Þar hafa menn vísað í tvennt, annars vegar í afstöðu dómstóla, og þá Evrópudómsyfirvalda sem hafa efasemdir um að ákvæðið eða bann við áfengisauglýsingum standist yfirleitt, og menn hafa jafnframt vísað í að það sé erfitt í framkvæmd. Ég hef ákveðnar efasemdir um að við eigum að láta dómstólana stýra för hvað þetta snertir. Ég held að þarna eigi lýðræðislega kjörin yfirvöld að reyna að taka af skarið. Það er erfitt í framkvæmd, það er alveg rétt. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því en engu að síður eru uppi mikil átök í heiminum, bæði vestan hafs og austan, um að hvaða marki eigi að reisa skorður við notkun og auglýsingu á áfengi og tóbaki. Það sjónarmið hefur orðið ofan á, ekki síst vestan hafs, að reisa mjög þröngar skorður og við tókum það upp hér á landi að banna tóbaksneyslu á veitingastöðum. Ég lýsti því yfir í ræðustóli að ég hefði ákveðnar efasemdir við bönnum af þessu tagi. Ég lét til leiðast þegar ég heyrði mjög afdráttarlausar yfirlýsingar frá samtökum fólks sem vinnur á þessum stöðum og taldi það vera sér mjög til bóta að fá lagasetningu af þessu tagi. Síðan verður ekki fram hjá því horft að þótt við leyfum neyslu á áfengi og tóbaki þá deilir enginn um það að óhófleg neysla er skaðleg og allt sem örvar eða leiðir til óhóflegrar eða mikillar neyslu er þar af leiðandi varhugavert.

Á vefmiðli Ríkisútvarpsins í dag kemur fram að Rússar áformi nú að banna tóbaksauglýsingar en samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, svo ég vitni í þessa frétt, með leyfi forseta, „... deyja um fimm milljónir manna vegna tóbaksreykinga í heiminum á hverju ári og þeir kunni að verða tvöfalt fleiri árið 2020 verði ekkert að gert. 300–500 þúsund Rússar deyja af völdum tóbaksreykinga á hverju ári. Rússar eru nú um 142 milljónir. Þeim hefur um nokkurt skeið fækkað um að meðaltali hálfa milljón á ári en ástandið hefur þó skánað nokkuð allra síðustu ár. Rússland er stærsti markaður tóbaksfyrirtækja í Evrópu og sá þriðji stærsti í heimi. Stjórnvöld hafa takmarkað auglýsingar á tóbaki en stefna nú að aðild að sáttmála Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um tóbaksvarnir en þar er kveðið á um að ríki banni allar auglýsingar og kynningar á tóbaki innan fimm ára frá aðild. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur áherslu á að draga úr tóbaksreykingum í heiminum og bregðast við tilraunum fjölþjóðlegra tóbaksfyrirtækja til að auka tóbaksnotkun í þróunarlöndunum. Erlend fyrirtæki hafa sótt mikið inn á Rússlandsmarkað á undanförnum árum.“

Hér las ég upp úr frétt á fréttavef RÚV frá því í dag sem tengist þessu máli, þ.e. hvort réttlætanlegt sé að setja bann við auglýsingum á skaðlegum efnum eins og tóbaki og áfengi jafnvel þótt við leyfum sölu á þessum efnum. Spurningin er: Hvernig finnum við þarna eitthvert meðalhóf? Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að banna áfengisneyslu. Ég er hins vegar á því að við eigum að reyna að takmarka neysluna, alla vega að koma í veg fyrir að hún sé undirseld markaðslögmálum og það er gert með því að takmarka auglýsingar. Um það eru mikil átök, ekki bara hér á landi heldur í heiminum öllum og spurningin er: Hvar í sveit viljum við skipa okkur í þeim átökum? Það þýðir ekkert að fá í hnén eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal og gefast upp vegna þess að hann les það í Time Magazine eða sér það í útsendingum frá kappleikjum að áfengi og tóbak er auglýst. Ég ítreka að það eru átök um það í heiminum öllum og við þurfum að taka afstöðu til þess hvar í sveit við viljum skipa okkur í þessum átökum. Ég ber að sjálfsögðu virðingu fyrir sjónarmiðum sem eru á öndverðum meiði við það sem ég set hér fram. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að þeim lögum sem eru í gildi sé fylgt. Mér hefur sárnað það mjög að sjá á undanförnum árum hvernig farið er á bak við þessi lög. Ef menn eru á því máli að heimila eigi áfengisauglýsingar þá eigum við að breyta lögunum og takast á um það í þinginu hvað heppilegast sé í því efni. Skoðanir mínar eru mjög skýrar en ég held að við hljótum öll að vera sammála um að þeim lögum sem við á annað borð setjum eigi að fylgja.