135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

meðferð opinberra mála.

89. mál
[18:30]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frumvarpi sem er að finna á þskj. 89 um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála. Í því er lagt til að bæta einni málsgrein við 87. gr. laganna og 1. mgr. hennar, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þegar úrskurður um aðgerðir á grundvelli a-, c- eða d-liðar 86. gr. er kveðinn upp skal dómari skipa þolendum aðgerðanna réttargæslumann.“

Í öðru lagi er lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Eins og fram kemur í þessu er lagt til að sú breyting verði á að þegar um er að ræða að lögreglan telur nauðsynlegt að hlera síma þeirra sem fylgst er með, og til þess þarf úrskurð dómara samkvæmt gildandi lögum, hvort sem það eru samtöl, hljóð, merki eða myndir, er lagt til að í lögin verði bætt ákvæði um að í þeim tilvikum skuli réttargæslumaður skipaður til að gæta hagsmuna þess sem hleraður er og hafa nokkurt eftirlit með því að þeir sem fá heimild til hlerunar fari að réttum lögum og reglum. Það má segja að þessi tillaga endurspegli hið gamla rómverska máltæki: Hver gætir sjálfra varðanna sem settir eru til að gæta öryggis borgaranna? Einhverjir þurfa að hafa eftirlit með þeim svo að þeir haldi sig innan þess ramma sem þeim er ætlað. Þetta er á latínu: Quis custodiet ipsos custodes? svo að það sé hér á frummálinu.

Þetta mál er sótt í dönsku réttargæslulögin, sem er fyrirmynd laga um meðferð opinberra mála, og má sjá víða í þeim lagabálki vitnað til dönsku réttarfarslaganna. Ég sæki þessa breytingartillögu til ákvæðanna í dönsku lögunum samsvarandi ákvæði í 784. gr. Mér finnst það umhugsunarefni hvers vegna þetta ákvæði um réttargæslumann fyrir þolanda rataði ekki inn í íslensku lögin á sínum tíma, hvers vegna það varð viðskila í lagasetningunni sem fór fram á sínum tíma og byggðist að verulegu leyti á dönsku lögunum. En það er spurning sem menn geta velt fyrir sér og kannski er hægt að leita upplýsinga um það í hv. allsherjarnefnd sem ég legg til að málið gangi til að lokinni þessari umræðu: Hvernig stendur á því að þetta ákvæði fylgdi ekki með lögunum þegar þau voru sett að öðru leyti?