135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

meðferð opinberra mála.

89. mál
[18:34]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að mér finnst það frumvarp, sú tillaga sem í því felst og við ræðum hér, og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur gert grein fyrir, vera allrar athygli verð, þ.e. að tekið verði upp í ákvæði íslenskra laga að þolendum, ef svo má segja, símhlerunar, hlustunar, kvikmyndunar eða ljósmyndunar verði skipaður réttargæslumaður af dómara þegar rannsóknaraðilar óska eftir slíkum heimildum á grundvelli laga um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að þegar lögregla fer fram á heimildir til hlustunar, símhlerunar, eða annarra úrræða, sem þar eru tilgreind, skipi dómari þeim sem aðgerðirnar beinast að réttargæslumann. Í greinargerð með frumvarpinu, sem er stutt og snörp, segir að þessar aðgerðir eigi það sameiginlegt að þeim sé beint gegn aðila sem ekki veit af þeim enda væru þær tilgangslausar ef svo væri.

Það þarf svo sem ekki að fara yfir það í löngu máli að þau úrræði sem við ræðum hér eru mjög íþyngjandi. Það er íþyngjandi að þurfa að sæta því að lögregla hleri síma manns en það kann að vera nauðsynlegt við rannsókn á sakamálum og það er eðlilegt að lögreglan hafi slík úrræði ætli hún sér að upplýsa um brot sem viðkomandi aðili er grunaður um að ætla að fremja. Hitt er annað mál að þessi úrræði eru gríðarlega mikilvæg fyrir lögreglu og það er rétt, sem kemur fram í greinargerðinni, að ef sá sem þessar aðgerðir beinast að vissi af þeim væru þær tilgangslausar og það kæmi í veg fyrir að þær næðu tilgangi sínum.

Ég velti því fyrir mér varðandi þetta frumvarp: Yrði frumvarpið samþykkt og Alþingi mundi fallast á það með flutningsmanni frumvarpsins að ástæða væri til að tryggja þolendum slíkra aðgerða réttargæslumann, þyrftu þá ekki að vera fyllri reglur um það eftir hvaða reglum þeir réttargæslumenn ættu að starfa? Ég mundi telja að það væri óheppilegt að í löggjöf sem þessari gildi engar slíkar reglur vegna þess að þá skapast sú hætta að þau úrræði sem hér um ræðir hefðu ekki þá virkni eða þá þýðingu sem þau hafa nú. Ég velti því t.d. fyrir mér hvort ekki væri ástæða til að kveða á um það að þeir réttargæslumenn, sem hér er lagt til að komi til, yrðu bundnir þagnarskyldu sem slíkir varðandi þær upplýsingar sem þeir fengju við þessar aðstæður eða að aðrar reglur yrðu settar sem þeir mundu þá gangast undir.

Þessi sjónarmið vantar í frumvarpið að mínu mati en ég tek það hins vegar fram að mér finnst tillagan allrar athygli verð. Ég bendi hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni á að nú er til umfjöllunar í hv. allsherjarnefnd frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra til laga um meðferð sakamála. Ég fæ ekki séð að neitt mæli gegn því að við yfirferð á því máli í nefndinni verði þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu tekin til athugunar og að nefndin velti því fyrir sér hvort ástæða sé til að fella slíka reglu inn í það frumvarp og þá hugsanlega með einhverjum af þeim skilyrðum sem ég hef nefnt. Ég vildi koma þessu sjónarmiði á framfæri til flutningsmannsins.