135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[19:49]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er lagt fram og hæstv. félagsmálaráðherra hefur fylgt úr hlaði. Í aðdraganda síðustu kosninga bar atvinnuleyfi útlendinga á góma oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í umræðu minni við kjósendur. Það sem fólk spurði mikið um var hvers vegna ekki væri hægt að skilgreina betur atvinnuleyfin. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu segir að einungis hafi ein almenn tegund slíkra atvinnuleyfa verið án þess að horft væri til aðstæðna hverju sinni.

Tekið er á því í frumvarpinu og eins og ég sagði eru nú komnar skilgreiningar sem ekki voru fyrir hendi og eru þær í allmörgum liðum. Kannski var ástæðan fyrir því að fólk ræddi þetta við mig áhyggjur þess yfir því að ekki væri horft til þess að jafnvægi væri milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli á innlendum vinnumarkaði þegar verið var að gefa út slík leyfi. Frumvarpið tekur einmitt á þeim þætti.

Það er auðvitað gert eftir mörgum leiðum. Hæstv. ráðherra hefur farið býsna vel yfir það mál og kannski ekki ástæða til að fara yfir það frekar. Þar er þó lagt til, sem mér finnst mikilvægt, að sérstök tímabundin atvinnuleyfi verði veitt vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar. Þar er verið að mæta, eins og segir í athugasemdunum, auknum kröfum íslensks atvinnulífs um starfsfólk með ákveðna sérfræðimenntun sem þeir hafa ekki sem fyrir eru á íslenskum atvinnumarkaði. Miðað er við að heimilt verði að hraða afgreiðslu slíkra umsókna hjá Vinnumálastofnun en stofnuninni er m.a. heimilt að víkja frá vinnumarkaðssjónarmiðum sem frumvarpið tekur einmitt mjög mikið tillit til þegar um er að ræða störf sem krefjast háskólamenntunar.

Þá segir að enn fremur kunni að koma til önnur tilvik þegar um sérfræðistörf er að ræða þar sem stofnunin telur fyrirsjáanlegt að árangurslaust sé að leita eftir starfsfólki á sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins, enda um mjög sérhæfða þekkingu að ræða. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt og hafa ýmsar stofnanir, ekki síst háskólastofnanir, verið að ræða það við fulltrúa í félagsmálanefnd hversu nauðsynlegt sé að koma inn ákvæði sem snýr einmitt að því.

Áfram er gert ráð fyrir tímabundnu atvinnuleyfi vegna skorts á vinnuafli á innlendum vinnumarkaði en slíkt atvinnuleyfi er betur afmarkað við tímabundnar sveiflur í atvinnulífinu en áður. Ég tel að það sé mjög mikilvægur hluti frumvarpsins.

Varðandi það sem snýr að íþróttafólki segir að sífellt sé algengara að íslensk íþróttafélög vilji ráða til sín erlent íþróttafólk og er tekið fram í frumvarpinu að ekki þurfi að huga að vinnumarkaðssjónarmiðum við veitingu slíkra atvinnuleyfa. Þá er gengið út frá því að viðkomandi aðilar komi ekki nálægt vinnumarkaði að öðru leyti. Það er auðvitað dálítið sérstakt að því leyti að það gæti einmitt verið hagur okkar að það fólk kæmi út á hinn almenn vinnumarkað. Eins og frumvarpið lítur út held ég þó engu að síður að menn geti fengið atvinnuleyfi ef akkur er í því fyrir atvinnulífið og fyrir hagsmuni landsins að það fólk sé á almennum vinnumarkaði. Það á við um fleiri atriði, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, t.d. að útlendingar, sem fengið hafa bráðabirgðadvalarleyfi, eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða á grundvelli laga um útlendinga, gætu jafnframt fengið atvinnuleyfi tímabundið. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það sé bæði sjálfsagt og nauðsynlegt.

Einnig er lagt til að erlendir námsmenn sem stunda nám við íslenska skóla geti fengið atvinnuleyfi vegna starfa sem er hluti af námi þeirra en ekki vegna annarra starfa á íslenskum vinnumarkaði. Ég reikna með að við förum betur yfir það í nefndinni en fyrir fram sýnist mér að það þurfi ekki að vera með þeim hætti ef vinnumarkaðurinn býður í rauninni upp á það og kallar í rauninni á að það fólk sé á vinnumarkaði ef það kýs svo. Ég hefði haldið að miðað við að námsmenn í ýmsum öðrum löndum vinna með námi, þá sé ekkert óeðlilegt við að ef þeir koma til Íslands geti þeir haft þann möguleika að vinna með námi ef atvinnuástand hér leyfir. Þannig ástand hefur ekki verið hér í mjög langan tíma að það leyfi ekki slíkt. Hæstv. ráðherra mundi kannski viðra hvaða skilning hún leggur í það, ef hún tekur aftur til máls.

Ég fagna þessu frumvarpi og er mjög ánægður með að það taki á ýmsu sem við lofuðum fyrir kosningar að skoða. Það er mjög brýnt að aðlaga dvalarleyfi og atvinnuleyfi að þeim aðstæðum sem hér eru á vinnumarkaði hverju sinni og því styð ég það heils hugar þótt ég áskilji mér að sjálfsögðu rétt til að endurskoða og fara yfir einstök ákvæði í nefndinni. Hv. þingmaður Atli Gíslason kom einnig inn á það í ræðu sinni áðan.