135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[20:18]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Mér finnst hún hafa verið mjög málefnaleg og góð og snerta á ýmsum atriðum sem ég hef áður heyrt að menn hafi áhyggjur af og vilji skoða og ígrunda í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Ég mun koma inn á nokkur þessara atriða og rökin fyrir því af hverju þau eru eins og lýst er í frumvarpinu.

Ég vil byrja á íþróttamönnum og námsmönnum sem hv. 4. þm. Suðvest., Ármann Kr. Ólafsson, nefndi. Lagt er til í frumvarpinu að íþróttafólk utan Evrópska efnahagssvæðsins sem hingað kemur til starfa hjá íþróttafélögum fái sérstök atvinnuleyfi til slíkra starfa en gegni ekki hefðbundnum störfum á vinnumarkaði samhliða störfum sínum hjá íþróttafélögum en hv. þingmaður gerði athugasemd við það. Hvað þetta ákvæði varðar þá er verið að festa í sessi í lögum þá framkvæmdarvenju sem hefur verið hingað til að íþróttamenn utan Evrópska efnahagssvæðisins eigi ekki greiðari aðgang að störfum á innlendum markaði en aðrir ríkisborgarar ríkja utan svæðisins. Þetta er framkvæmdarvenja sem verið hefur með þessum hætti á undanförnum missirum og hún er gerð í fullu samráði við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Hún byggir á því að íþróttafólk hafi ekki rétt umfram aðra sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins til að stunda vinnu samhliða íþróttaiðkun, sem er meginástæðan fyrir komu þeirra til landsins, en öll störf sem tengjast starfi innan íþróttafélagsins er þeim heimilt að stunda. Ég geri ráð fyrir að þetta verði rætt í nefndinni en ég vildi bara undirstrika að framkvæmdin hefur verið með þessum hætti á undanförnum missirum og í fullu samráði við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.

Svipuð rök gilda um námsmenn. Lagt er til að erlendir námsmenn, sem eru ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, starfi ekki almennt samhliða námi sínu á innlendum vinnumarkaði heldur fái einungis atvinnuleyfi til að gegna störfum sem nauðsynleg eru vegna náms þeirra. Lögð er áhersla á að námið sé megintilgangur dvalar hér á landi en ekki atvinnuþátttaka en skilyrði er að viðkomandi hafi fengið dvalarleyfið vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga. Samkvæmt frumvarpinu geta námsmenn gegnt starfi sem tengist námi þeirra hér á landi en slík atvinnuleyfi geta ekki orðið grundvöllur óbundins atvinnuleyfis. Rökin eru þau eins og ég sagði áðan að ríkisborgarar utan Evrópska efnahagssvæðisins sem hingað koma í þeim tilgangi að stunda nám við íslenska skóla eigi ekki greiðari aðgang að innlendum vinnumarkaði en aðrir ríkisborgarar utan svæðisins. Þarna er verið að reyna að gæta ákveðins jafnræðis.

Hv. þm. Atli Gíslason gerði að umtalsefni efnisatriði sem voru í frumvarpi sem hann og vinstri grænir fluttu, ef ég skil rétt. Þetta eru atriði sem ég hef líka heyrt gerðar athugasemdir við áður. Í gildandi lögum eru tímabundin atvinnuleyfi veitt atvinnurekanda fyrir ákveðinn útlending eins og hv. þingmaður nefnir. Í frumvarpinu er þetta aðeins hreyft í átt til þess sem hv. þingmaður nefnir vegna þess að lagt er til að tímabundin atvinnuleyfi verði veitt á nafn viðkomandi útlendings og hann verði handhafi atvinnuleyfisins en það skilyrt við tiltekinn atvinnurekanda. Atvinnurekandi sækir áfram um atvinnuleyfið en er þó ekki eiginlegur umsækjandi heldur sækir um leyfi fyrir hönd útlendingsins. Þetta felur í sér þá breytingu að tímabundið atvinnuleyfi er veitt útlendingnum sjálfum en honum verður þó áfram einungis heimilt að starfa hjá þeim atvinnurekanda sem hann fær tímabundið atvinnuleyfi til að starfa hjá. Hafi hann hug á að skipta um starf verður nýi atvinnurekandinn að sækja um nýja tímabundna atvinnuleyfið fyrir útlendinginn áður en hann hefur störf. Talið er að í þessu felist ákveðið öryggi fyrir viðkomandi og að auðveldara sé fyrir hann og eins fyrir stjórnvöld sem og stéttarfélög að fylgjast með því að ekki sé farið illa með hann á innlendum vinnumarkaði þar sem hinn tiltekni atvinnurekandi sem leyfið hefur verið skilyrt við þarf að tryggja að farið sé að gildandi lögum og kjarasamningum. Einnig hefur atvinnurekandi ábyrgst greiðslur heimferðar útlendings í nánar tilgreindum tilvikum og ber að sjúkratryggja hann fyrstu sex dvalarmánuði hér á landi. Ég vil undirstrika að aðilar vinnumarkaðarins eru sammála um þá nálgun mála í frumvarpinu sem ég lýsi hér. Eins og hv. þingmenn vita hafa aðilar vinnumarkaðarins komið mjög að samningu þessa frumvarps og reynt að leita leiða til að sætta ólík sjónarmið í þessu efni og þetta varð niðurstaðan að því er þetta atriði varðar.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og ég get að mörgu leyti tekið undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hans varðandi þetta atriði. Rökin fyrir því af hverju við höldum utan um þessi mál með þeim hætti sem við gerum eru tvíþætt. Ég vil nefna í því sambandi að við höfum ákveðnar skyldur vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu sem við verðum að fullnusta, eins og þær að fólk innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur forgang til vinnu og aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu felur í sér þessar skuldbindingar. Eins og kom fram í máli mínu hafa mjög margir innan Evrópska efnahagssvæðisins sótt hingað til lands í vinnu frá árinu 2005 eða um 16 þúsund manns. Við höfum verið svo heppin að atvinnustig hefur verið hátt þannig að vinnumarkaðurinn hefur borið það en um leið og fer að herða að viljum við hafa stjórntæki til að geta haft stjórn á framboði og eftirspurn þannig að ákveðið jafnvægi sé á vinnumarkaðinum. Mörg ákvæði í þessu frumvarpi miða einmitt að því að fari að þyngjast undir fæti hjá okkur og atvinnustigið að breytast viljum við hafa ákveðna stjórn á hlutunum af því að við höfum líka þær skyldur að verja okkar innlenda vinnuafl eins og mér fannst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom ágætlega inn á.

Ég vil fara nokkrum orðum um það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi. Ég skil líka fullkomlega þau sjónarmið sem hann setur fram en við verðum þá að skoða þann ramma sem við verðum að starfa innan. Í fyrsta lagi skuldbindingar okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu og í öðru lagi það sjónarmið, sem er svolítið gegnumgangandi í þessu frumvarpi, að ákvæðin miða nokkuð út frá því að við höfum jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar til þess að hafa stjórn á innstreymi fólks sem kemur hingað til lands. Ákvæðin í frumvarpinu eru mjög opin að því er það varðar. Þetta eru kannski meginrökin fyrir þessu. Menn geta líka sagt eins og mér fannst hv. þm. Pétur H. Blöndal gera þegar hann bar saman sérfræðinganna sem verið væri að opna fyrir á ákveðinn hátt í frumvarpinu. Mjög hefur verið eftir því kallað af atvinnulífinu að sérfræðingar ættu greiðari aðgang inn í landið og inn á vinnumarkaðinn, þ.e. sérfræðingar sem við höfum ekki yfir að ráða sjálf. Kallað hefur verið eftir þessu og komið er til móts við það í frumvarpinu. Aðilar vinnumarkaðarins, bæði SA og ASÍ, eru sammála um þá nálgun mála sem við höfum hér. Annað gildir um ófaglærða hvað þetta varðar en ég ítreka að ég skil alveg þau sjónarmið sem hv. þingmaður setur fram.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi að honum fyndist lokunin of mikil og við ættum að hafa meiri möguleika á opnun til að fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins geti komið hingað til lands í meira mæli með ættingja sína. Ég hef fulla samúð með því sjónarmiði sem hér er sett fram. Á þeim stutta tíma sem ég hef gegnt starfi félagsmálaráðherra, í sex til sjö mánuði, hef ég æðioft fengið til mín fólk sem er í öngum sínum yfir því að geta ekki fengið ættingja sína hingað til lands. En sömu rökin og ég nefndi áðan eru raunverulega fyrir því að menn hafa ekki viljað fara út í meiri opnun hvað þetta varðar. Ég geri ráð fyrir því, eins og hv. þingmaður nefndi reyndar sjálfur og ég hygg að hann eigi sæti í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar, að þetta atriði verði tekið til umræðu í nefndinni eins og annað sem rætt hefur verið hér við 1. umr. um málið.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og vona að málið fái góða umfjöllun í nefndinni og við fjöllum fljótt um það aftur við 2. umr.