135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[20:43]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

Ég ætla fyrst að nefna þetta orð „verkafólk“ því að svo virðist sem lögin nái til miklu fleira fólks en þess sem í almennu tali er nefnt verkafólk. Ég vil líka benda á að uppsagnarákvæði laganna er gagnkvæmt. Ef uppsögn á að vera rökstudd og málefnaleg gildir það líka fyrir launþegann. Hann verður þá að færa rök fyrir uppsögn sinni, vera málefnalegur og segja af hverju hann segir upp o.s.frv.

Greinargerðin með frumvarpinu er mjög undarleg. Mér finnst hún hreint út sagt ekki eiga við Ísland. Á Íslandi hefur í lengri tíma verið skortur á vinnuafli og annaðhvort er jafnvægi á vinnumarkaði eða launþeginn hefur yfirhöndina. Í Þýskalandi, þar sem atvinnuleysi hefur verið í 40 til 50 ár, hef ég heyrt af slíku ofbeldi atvinnurekanda gagnvart launþegum þegar alls staðar er nóg fólk að hafa. Þá segja atvinnurekendur jafnvel þegar launþeginn vill fá kjarabætur: Ertu nokkuð að hætta hjá okkur? Ég hef heyrt það. En hér á landi, þar sem eftirspurn er eftir vinnuafli, get ég ekki ímyndað mér að nokkurt einasta fyrirtæki segi upp fólki með svo kæruleysislegum hætti eins og sagt er frá í greinargerðinni vegna þess að atvinnurekandinn er um leið að gefa merki til starfsmanna sinna. Hann er að gefa þeim merki um að þannig geti hann líka hegðað sér gagnvart þeim, hverjum og einum.

Öll fyrirtæki vita það nú til dags að launþegarnir og starfsmennirnir eru fyrirtækið. Þeir eru auður fyrirtækisins. Byggingarnar má kaupa aftur, bílana má kaupa aftur eða leigja en starfsfólkið og reynslu þess færðu ekki aftur. Það er ótrúlegt að eitthvert fyrirtæki hegði sér eins og hér er sagt, og kom fram í framsöguræðu hv. framsögumanns, að um sé að ræða geðþóttauppsagnir og órökstuddar uppsagnir og alkunna sé sú mismunun sem konur sæti í íslensku þjóðfélagi, þær sæti órökstuddum uppsögnum vegna kynferðis síns. Hverjum dettur slíkt í hug? Hvaða atvinnurekandi mundi gera slíkt og gefa þar með merki til allra starfsmanna um að þeir skuli passa sig? Þetta er fráleitt, herra forseti. Ég get ekki ímyndað mér að nokkurt einasta fyrirtæki geri slíkt og ef það gerir slíkt þá gerir það það ekki mjög lengi því að það mun ekki starfa lengi. Þetta er mjög einfalt.

Hér eru líka fullyrðingar um að reynslan virðist sú að harka og óbilgirni í samskiptum atvinnurekenda við starfsfólk færist í vöxt. Ég get ekki ímyndað mér að það sé rétt, herra forseti, þegar fólk vantar út um allt. Ég get ekki ímyndað mér að menn sýni óbilgirni og aukna hörku í samskiptum þegar það vantar fólk. Það er þá eitthvað mjög undarlegt í gangi ef sú er reyndin. Mér finnst því margt í þessari greinargerð vera — ég bara kannast ekki við það af minni reynslu, og hef þó, reyndar fyrir nokkuð löngu, verið atvinnurekandi.

Hér er sagt að þegar fyrirtæki þurfi að segja upp starfsfólki vegna ytri aðstæðna, vegna þess að reksturinn sé að dragast saman eða eitthvað slíkt, sé starfsmönnum sagt upp eftir starfsaldri. Mér finnst það jafnóréttlátt og annað. Ungur maður sem er búinn að byggja upp framtíð sína, mennta sig, og hefur starfað í þrjú ár í fyrirtækinu — allt í einu á að kippa undan honum grundvellinum. Hann er nýbúinn að kaupa sér íbúð, eignast barn o.s.frv. og allt í einu á að segja honum upp af því að hann hefur unnið skemur í fyrirtækinu en aðrir. Mér finnst það ekki málefnalegt. Mér finnst það ósanngjarnt. Ég hef svo sem engar aðrar leiðir til að leysa þetta en mér finnst það alveg jafnmikil ósanngirni eins og að segja fólki upp eftir öðrum aðferðum.

Það getur oft verið skaðlegt fyrir þann sem í hlut á að uppsögn eigi að vera rökstudd. Það er ekki endilega víst að það sé gott fyrir hann að hafa það skriflegt einhvers staðar að honum sé sagt upp vegna leti eða drykkjuskapar, vegna slæmrar mætingar, sinnuleysis eða ábyrgðarleysis. Ég er ekki viss um að það henti öllum. Ef þetta verður tekið inn ættu menn alla vega að hafa það á þann veg að launþeginn geti vikið sér undan því þar sem það getur skaðað hann verulega. Það getur verið að hann vilji taka sig á á nýjum stað og bæta úr göllum sínum. Það er því ekki endilega víst að þetta sé æskilegt. Ég vil einnig benda á að þetta á að vera gagnkvæmt þannig að nú þyrftu launþegar að fara að útskýra af hverju þeir hætta hjá fyrirtæki. Ég er hræddur um að sumum muni bregða því að fólk hættir bara viðstöðulaust í dag. Menn hætta í vinnu eins og að drekka vatn og hugsa ekkert um hag fyrirtækisins sem oft lendir í standandi vandræðum, ég tala nú ekki um barnaheimili og annað slíkt. Þar eru menn ekki að hugsa sinn gang.

Minnst er á að mönnum er stundum sagt að taka pokann sinn og fara strax, það er rétt. En hvaða menn eru það? Hvaða starfsmenn eru það, herra forseti? Hv. þingmaður gleymdi að nefna það. Ég held að það sé aldrei nokkurn tímann fólk sem skúrar eða er í eldhúsinu eða eitthvað slíkt. Nei, það eru forstjórar, deildarstjórar eða menn sem eru svo mikilvægir að þeir gætu hugsanlega skaðað fyrirtækið með því að starfa í því áfram, og ég vorkenni þeim yfirleitt ekki. Ég held að þessu ákvæði sé aldrei beitt gagnvart almennum starfsmanni enda væri það fráleitt. Af hverju ætti fyrirtækið ekki að nota krafta mannsins á uppsagnarfrestinum í stað þess að borga honum laun fyrir að gera ekki neitt? Hann hlýtur að skila einhverju. Þetta á við um forstjórana þegar menn sjá að þeir gætu hugsanlega valdið skaða ef þeir starfa áfram.

Ég vil líka benda á að allur vinnumarkaðurinn er í jafnvægi. Jafnvægi er milli framboðs og eftirspurnar, launa og alls slíks. Ef því jafnvægi er raskað skemmist eitthvað annað í staðinn. Þegar fæðingarorlof kvenna var lengt jókst launamunur karla og kvenna. Þegar uppsagnarfrestur er lengdur skaðar það viðkomandi stétt, henni er frekar sagt upp. Um leið og menn fara að raska jafnvæginu á einhvern hátt kemur það niður einhvers staðar annars staðar. Mér finnst í góðu lagi að uppsögn eigi að vera skrifleg, rökstudd og málefnaleg. Hún á að vera skrifleg og það mættu vera tilmæli til fyrirtækja og jafnvel til starfsmanna að hafa það svo. Ég hugsa þó að það reynist sumum erfitt að þurfa að segja við mann: Heyrðu, ég verð að segja þér upp af því þú drekkur svo mikið, eða eitthvað í þá veruna. Ég hugsa að mörgum atvinnurekanda reynist það erfitt. Það er nógu erfitt að segja manni upp.

Það kemur ekki fram í frumvarpinu að það er mjög erfitt fyrir atvinnurekanda að segja manni upp. Ég hef talað við nokkra þeirra og það er það erfiðasta sem þeir gera. Ég held því að menn séu ekki að leika sér að því að segja fólki upp, það er ótrúlegt.