135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[21:02]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er ég mér þess fullkomlega meðvituð að atvinnuleysi og atvinnustig hér er miklu hagstæðara en í öðrum löndum Evrópu, sem betur fer er það þannig. Það breytir því ekki að það getur verið fullkomin ástæða til þess, eins og ég var að benda hér á, að við kynnum okkur þau lög sem þar hafa verið sett og þar gilda. Það þarf ekki endilega að vera löggjöfin sem slík sem leiðir til þess að hér sé hærra atvinnustig en mér finnst það ekki saka í þessu mikla deilumáli sem verið hefur hér svo lengi að við kynnum okkur þau lög sem annars staðar gilda um þetta efni. Ég er ekki þar með að segja að við eigum að fara eftir þeim en það sakar ekki að kynna sér þau ákvæði sem hafa verið lögfest í þessum Evrópuríkjum að því er þetta atriði varðar. Auðvitað er fráleitt að halda því fram að með því að setja reglur sem á einhvern hátt koma til móts við þau sjónarmið sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram, ég er ekki að segja að þau þurfi að líta út eins og þau eru í þessu frumvarpi, þá verði til þess að atvinnurekendur hætti að ráða starfsfólk. Ég spyr þá hv. þingmann: Hvernig á þá að reka fyrirtækin ef hætt verður að ráða starfsfólk?