135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:33]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa fyrirspurn um Íbúðalánasjóð og fyrir að vekja athygli á mjög jákvæðum viðhorfum til sjóðsins af hálfu almennings. Sjóðurinn hefur gert könnun á því reglubundið hver viðhorf almennings séu til reksturs sjóðsins og almennt til hlutverks hans og niðurstöður hafa ávallt verið mjög svipaðar, þ.e. að 80% af íbúum landsins og rúmlega það styðja sjóðinn. Aðeins 10% hafa viljað koma á heildsölubanka og önnur 10% vilja að bankarnir taki yfir.

Ég hef svarað því oft áður úr ræðustóli að Íbúðalánasjóður á að vera óbreyttur ef ég fengi að ráða. Það eru blikur á lofti og þær þekkir hv. þingmaður mjög vel frá fyrri ríkisstjórn þar sem kærur komu fram frá Eftirlitsstofnun EFTA og málið er enn til skoðunar og við vitum ekki hvert það leiðir okkur. Engar áætlanir hafa verið gerðar af hálfu ríkisstjórnarinnar um að breyta hlutverki sjóðsins að svo stöddu og það verður einungis gert í samræmi við þær kröfur sem hugsanlega verða gerðar og koma í framhaldi af þeim viðræðum sem þar eru.

Við vitum að húsnæðisnefnd hefur skilað niðurstöðu en ég verð að upplýsa að farið hefur verið með hana sem trúnaðarmál á meðan verið er að ræða við sveitarfélögin eins og hæstv. ráðherra kynnti fyrir stuttu. Það álit hefur ekki verið kynnt fyrir mér sem formanni félags- og tryggingamálanefndar eða fyrir nefndinni þannig að ég get ekki tjáð mig frekar um það. Við vitum öll að það eru ákveðnir erfiðleikar á húsnæðismarkaðnum, bæði hvað varðar hátt vaxtastig og það er erfitt fyrir einstaklinga að komast inn á íbúðamarkaðinn vegna þess hve mikið þeir þurfa að greiða í útborgun og fleira mætti til taka. Ég tel mjög mikilvægt að við förum varlega í þeim málum eins og ástandið er í augnablikinu og Íbúðalánasjóður á að vera þar traustur grunnur.