135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:42]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að ég stend hér ekki upp til að mæla fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu álitaefni sem er, eins og ég skil fyrirspurnina, til komin vegna frétta af þessum fimmmenningum sem hafa uppi hugmyndir um að NATO skerpi á stefnu sinni í kjarnorkumálum. En ég held að rétt sé að hafa í huga þegar kemur að kjarnorkustefnu NATO að þar hefur auðvitað verið farið mjög eindregið í ákveðna átt frá lokum kalda stríðsins þar sem NATO hefur markvisst verið að fækka kjarnorkuvopnum og öðrum langdrægum vopnum sínum. Í dag er engum kjarnorkuvopnum beint að tilteknu ríki eins og áður var og þróunin hefur því öll verið í aðra átt en þeir fimmmenningar sem hér er verið að vísa til mælast til að tekið verði til skoðunar.

Ég held hins vegar að það sem við eigum að beina sjónum okkar að í tilefni þessarar fréttar séu þær áhyggjur sem eru ástæða þess að þessi tillaga kemur fram frá fimmmenningunum en það er mat þeirra á þeirri ógn sem vestrænum ríkjum stafar af hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og mögulegri útbreiðslu gereyðingarvopna. Það er þróun sem við eigum að taka alvarlega og fylgjast vel með og innan NATO hljótum við að styðja aðgerðir sem eru til þess fallnar að hindra frekari þróun í óheillavænlega átt á því sviði.